Gróusögur eru fljótar að berast manna á milli
Ég hef búið hér í bæjarfélaginu í nokkur ár með dóttur minni, eignast hér góða vini og kynnst frábæru fólki. Það er eitt sem þó hefur farið fyrir hjartað mitt en það er hvernig fólk getur talað um hvort annað. Gróusögur eru fljótar að berast manna á milli.
Þá vil ég leggja mikla áherslu á að lítil eyru heyra ýmislegt sem þau ættu alls ekki að þurfa að þola. Börnin eru það mikilvægasta sem við eigum og okkur ber skylda að vernda þau frá öllu illu. Slíkar sögur sem ég tala um eru engin
undanskylda. Við sem búum í svona litlu samfélagi eigum að standa við bakið á hvort öðru, ekki sitja hvert í sínu horni og tala illa um náungann eða bera út róg sem á ekki við nein rök að styðjast. Þetta virðist vera algengt í litlum samfélögum en það er eitthvað sem við, íbúar Sauðárkróks, eigum ekki að sætta okkur við.
Ég hef orðið vör við slíkan rógburð í minn garð og fjölskyldu minnar og þykir það miður og eflaust hafa margir lent á milli tannanna á fólki og skilja hvað ég á við.
Ég skrifa þetta bréf til að leggja áherslu á að við eigum að sýna samheldni sem íbúar á Sauðárkrók og njóta þess að búa í sátt og samlyndi við hvort annað. Ég tel það vera forréttindi
að fá að búa hér á Sauðárkrók þar sem mér líður vel og finn fyrir öryggi fyrir mig og fjölskyldu mína.
Ég vona að við getum tekið okkur saman og komið í veg fyrir slíkar kjaftasögur sem leiða aldrei neitt annað af sér en depurð og slæma líðan þeirra sem fyrir þeim verða.
Kveðja Nafnlaus ung kona á Sauðárkróki
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.