Grindvíkingar sendu Stólana út úr Subway-bikarnum

Tindastóll og Grindavík mættust í 8 liða úrslitum Subway-bikarsins í Síkinu í kvöld. Gestirnir af Suðurnesjum náðu yfirhöndinni strax í fyrsta leikhluta og höfðu forystuna allt til leiksloka og sigruðu með 10 stiga mun, 86-96. Þeir náðu þó aldrei að hrista Stólana almennilega af sér og var leikurinn ágæt skemmtun og spennandi allt fram á lokamínútu.

Það var allur annar bragur á leik Tindastóls í kvöld en síðastliðið fimmtudagskvöld þegar Njarðvíkingar keyrðu yfir Stólana án fyrirhafnar. Nú var baráttan í lagi. Axel fékk það hlutverk að líma sig á Pál Axel sem gerði 54 stig í leik liðanna fyrir réttri viku. Nú átti hann erfiðara um vik en það væri synd að segja að kappinn færi illa með skotin sín. Þegar upp var staðið hafði hann gert 20 stig, aðeins Darrel Flake skoraði meira eða 21 stig.

Sem fyrr segir byrjuðu gestirnir betur en Stólarnir náðu að saxa á forskot þeirra undir lok fyrsta leikhluta en eftir hann voru Grindvíkingar yfir, 20-24.  Annar leikhluti var ekki nógu góður hjá heimamönnum, heppnin var ekki með þeim í skotunum sem mörg hver skrúfuðust upp úr körfunni  á meðan leiðinlega margir boltar rötuðu ofan í körfu Stólanna. Í hálfleik höfðu Grindvíkingar náð 11 stiga forskoti, staðan 41-52.

Grindvíkingar náðu að auka forskotið í þriðja leikhluta en heimamenn settu fyrir lekann og börðust af miklum móð og enduðu leikhlutann með því að koma sér vel inn í leikinn. Hápunkturinn var flautukarfa frá Helga Frey sem rifjaði upp gamla takta frá því þegar kappinn dundaði við að skjóta frá miðju í hálfleik á leikjum Tindastólsliðsins á síðustu öld. Helgi hefur verið hálf ragur fyrir utan 3ja stiga körfuna í vetur en nú skellti hann sér í rólegheitum í skot vel aftan við miðju og setti boltann að sjálfsögðu beint í og minnkaði muninn í 68-73 við mikinn fögnuð áhorfenda.

Grindvíkingar juku muninn í 10 stig í byrjun fjórða leikhluta en Stólarnir neituðu að gefast upp og aðeins óheppnin sem kom í veg fyrir að þeir næðu að velgja Grindvíkingum almennilega undir uggum. Gestirnir voru reyndar komnir í villuvandræði og ákváðu að hægja aðeins á sóknarleiknum og lengja sóknir sínar og það dugði til og að lokum sigruðu þeir með 10 stiga mun, 86-96.

Hittni Tindastólsmanna var alls ekki nógu góð á löngum köflum í leiknum en Grindvíkingar sáu reyndar til þess að Stólarnir þurftu oft að taka erfið skot. Þannig reyndi Svavar sjö 3ja stiga skot en ekkert fór í sem hefur örugglega ekki oft hent Svabba. Aðeins þrjú af 20 3ja stiga skotum heimamenn rötuðu raunar rétta leið á meðan að Grindvíkingar voru ógnandi fyrir utan og skiluðu niður 11 af 27 3ja stiga skotum sínum. Þeir voru sömuleiðis talsvert öruggari í skotum innan teigs nema þeir stæðu á vítalínunni en þeir nýttu aðeins 48% vítaskota sinna á meðan leikmenn Tindastóls settu niður 75% af sínum vítaskotum. Öfugt við leik liðanna á dögunum þá voru gestirnir miklu grimmari í fráköstunum í kvöld og virtist oft á tíðum sem Stólarnir væru svo pottþéttir á að skot Grindvíkinga rötuðu í körfuna að þeir hugsuðu ekki um að taka fráköst.

En semsagt; Stólarnir úr leik í Subway-bikarnum eftir ágætan leik. Nú verða menn að fara að safna stigum ef liðið ætlar að pota sér í úrslitakeppnina. Áfram Tindastóll!

Stig Tindastóls: Boyd 18, Svavar 17, Helgi Margeirs 13, Giovacchini 11, Helgi Viggós 7,  Rikki 7, Sigmar 5, Sveinbjörn 4 og Axel 4.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir