Grafinn silungur, kótilettur í tómatsósu og rabarbarakaka

Matgæðingar vikunnar að þessu sinni eru þau Jónína Helga Jónsdóttir og Halldór Pálsson bændur á Súluvöllum á Vatnsnesi í V-Hún.  Uppskriftir þeirra hafa verið notaðar í  mörg ár og eru búnar að sanna sig á ýmsum matgæðingum ungum sem öldnum á þeirra heimili. - Ætli það megi ekki segja að heimafengið hráefni einkenni allar uppskriftirnar  þar sem sjóbirtingur veiðist hér við sjóinn, lömbin eru í túnjaðrinum og nóg er af rabarbara í garðinum, segja matgæðingarnir.

Grafinn silungur

  • 6 silungaflök
  • 6 msk þurrkað dill
  • 3 msk gróft salt
  • 1 tsk fennil
  • ½ tsk pipar
  • 1 msk aromat

Kryddinu blandað saman og stráð á bakka. Silungurinn lagður ofan á með roðið niður. Þekið fiskinn með kryddblöndunni. Endurtakið eftir þörfum. Gott er að snúa silungnum eftir 24 klst. Látið liggja í ísskáp í 2 sólarhringa.  Síðan fryst, það er líka best að skera silunginn í sneiðar hálffrosinn.

Sósa

  • 3 hlutar mayonase,
  • 2 hlutar sætt sinnep,
  • 1 hluti hunang,
  • þurrkað dill og
  • þeyttur rjómi til að gera sósuna léttari.

Þetta er borðað með ristuðu brauði sem forréttur og svo er einstaklega gott að eiga þetta í frysti ef óvænta gesti ber í garð.

Kótilettur í tómatsósu

  • 12 kótilettur
  • 3 msk hveiti
  • 2 tsk salt
  • 2 tsk karrý
  • 2 tak paprikuduft
  • 2 dl tómatsósa
  • 2 dl vatn
  • 1-2 dl rjómi

Kryddi og hveiti blandað saman í plastpoka og kótiletturnar þaktar kryddblöndunni. Brúnað vel á pönnu, vatni og tómatsósu bætt út í og látið malla undir loki í 15 mín. Rjóma bætt út í soðið, suðan látin koma upp, slökkt undir og kótiletturnar látnar liggja áfram. Borið fram með hrísgrjónum og salati og jafnvel snittubrauði.

Þessi lambakjötsréttur hefur verið á borðum hjá okkur síðan við hófum okkar búskap og alltaf virkað vel, þetta er undanfari kjötrétta með tómatpúrru og niðursoðnum tómötum og alveg eins má nota framhryggjasneiðar og ef margir eru í mat er ofninn notaður.

Í eftirrétt er rabarbarakaka enda nóg til af góðum uppskriftum með rabarbara.

Rabarbarakaka

  • 500 gr rabarbari
  • 100 gr smjör
  • 1 bolli hveiti
  • 1 bolli sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2-3 stk egg

Þetta gæti ekki verið auðveldara. Brytjaður rabarbari er settur í eldfast form. Smjörið brætt og þurrefnunum bætt út í og loks eggjunum, hrært saman og smurt yfir rabarbarann. Bakað við 170°C í 25-30 mín. Svo er bara að setja sitt uppáhald út í eða yfir s.s. hnetuspænir, rifið marsipan , kanil eða hvað sem er. Best er að bera þetta fram heitt með ís eða rjóma.

Verði ykkur að góðu!

*Áður birt í Feyki 2010

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir