Grafin gæs í forrétt, lambalundir og file í aðalrétt og bláberjaostakaka í eftirrétt

Gunnlaugur og Helga Sjöfn bjóða upp á grafna gæsabringu, file og lundir af lambahrygg og bláberjaostaköku í eftirrétt.
Gunnlaugur og Helga Sjöfn bjóða upp á grafna gæsabringu, file og lundir af lambahrygg og bláberjaostaköku í eftirrétt.

Kúabændurnir Gunnlaugur Hrafn Jónsson og Helga Sjöfn Helgadóttir voru matgæðingar Feykis árið 2010 þegar haustið skartaði sínu fegursta. En ekki er verra að njóta þessara rétta í upphafi aðventu.  

Forréttur:

Grafin gæsabringa

  • 1 msk fínt salt
  • 1 ½ msk sykur
  • 2 msk mulin einiber
  • 1 tsk rósmarín
  • 1 tsk pipar

Bringunni velt upp úr kryddblöndu og sett í kæliskáp í 3-4 sólarhringa, snúið reglulega.

Sósa með gæsabringunni

  • púrtvín
  • rifsberjahlaup
  • fersk steinselja, smátt skorin
  • hvítur pipar

Öllu blandað saman eftir smekk. Bringan skorin mjög þunnt og gott að bera fram með ristuðu brauði eða maltbrauði.

Aðalréttur:

File og lundir af einum lambahrygg

  • 1 bréf beikon
  • 1 laukur
  • Sveppir eftir smekk
  • Olía til steikingar
  • ½ l rjómi

File og lundir snöggsteiktar í olíu og kryddaðar með salti og pipar. Sett í eldfast mót. Beikon, laukur og sveppir brytjaðir og steikt í olíu á pönnu. Sett yfir kjötið í eldfasta mótið. Að lokum er rjóma hellt yfir, sett í ofn í 180 gráður í 1 klst. Mjög gott að bera fram með nýjum kartöflum, hrísgrjónum og salati.

Eftirréttur:

Bláberjaostakaka

  • 250 gr. makkarónukökur
  • 125 gr. smjör
  • 300 gr. rjómaostur
  • 200 gr. flórsykur
  • ½ l rjómi
  • 1 bolli bláber, fersk eða frosin

Súkkulaðikrem:

  • 200 gr. suðusúkkulaði
  • 1 msk. rjómi
  • 1 ds. sýrður rjómi

Suðusúkkulaði og rjómi hitað saman, sýrðum rjóma bætt út í. Smjörið brætt og makkarónukökum bætt út í, látið blotna vel og sett í form. Rjómaostur og flórsykur þeytt saman. Rjómi þeyttur og blandað saman við ostablönduna ásamt bláberjunum. Kakan fryst, tekin úr frysti og súkkulaðikreminu smurt yfir. Skreytt með ferskum eða frosnum íslenskum bláberjum. Best er að láta kökuna þiðna aðeins áður en hún er borin fram.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir