Grænmetisréttur og frönsk súkkulaðikaka
Matgæðingurinn í 42. tbl. Feykis árið 2017 var Aldís Olga Jóhannsdóttir, Hvammstangabúi sem hefur leitað fyrir sér á ýmsum stöðum s.s. á höfðuborgarsvæðinu, á Bifröst og í Danmörku áður en hún sneri aftur til heimahaganna. Aldís er lögfræðingur að mennt og stafar sem innheimtustjóri og svæðisfulltrúi hjá HVE á Hvammstanga. „Mér finnst eilítið kómískt að vera að færa fram uppskriftir, því ég hef löngum verið talin mjög matvönd. Það er afar sjaldgæft að kjötmeti fari inn fyrir mínar varir, en matvönd er ég ekki á súkkulaði!“ segir Aldís sem reiðir fram tvær freistandi uppskriftir.
RÉTTUR 1
Fljótlegt karrígrænmeti
2 msk. kókosolía
133 g sætar kartöflur, flysjaðar og í teningum
170 g blómkál, skorið
½ laukur, smár og sneiddur
1 msk. karríduft
391 ml kókosmjólk
1 dós af tómötum í teningum
400 g kjúklingabaunir, sigtaðar og hreinsaðar
1 tsk. púðursykur
salt og pipar
hrísgrjón
Aðferð:
Hitið olíuna á pönnu á meðalháum hita. Kartöflunum skellt á pönnuna og látnar malla í þrjár mínútur. Hitinn er lækkaður í meðalhita og á pönnuna fer blómkál, laukur og karrýduft. Blandið vel og eldið í eina mínútu. Því næst á að bæta kókosmjólkinni og tómötunum við. Hrærið vel og leyfið suðu að koma upp. Lækkið þá hitann og leyfið að malla í 10 mínútur eða þar til grænmetið er orðið meyrt. Bætið þá kjúklingabaunum og púðursykri saman við. Saltið og piprið að vild. Borið fram með hrísgrjónum.
„Ég stenst ekki franska súkkulaðiköku. Bara ekki. Aldrei. Gulur, rauður, grænn og salt er með eina frábæra:“
RÉTTUR 2
Frönsk súkkulaðikaka
Botn:
2 dl sykur
200 g smjör
200 g suðusúkkulaði
1 dl hveiti
4 stk egg
Aðferð:
Egg og sykur þeytt vel saman. Smjör og súkkulaði brætt í potti við vægan hita á meðan. Hveitinu er svo blandað saman við eggin og sykurinn og svo fer súkkulaðibráðin varlega saman við. Bakað í ofni við 170°C í u.þ.b. 30 mín.
Súkkulaðibráð:
150 g súkkulaði (ég nota dökkt)
70 g smjör
2 msk síróp
Aðferð:
Sett í pott og brætt við lágan hita. Kælt eilítið og svo skellt á kökuna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.