Gradualekór Langholtskirkju með tónleika í Blönduóskirkju í kvöld

Gradualekór Langholtskirkju heldur tónleika í Blönduóskirkju í kvöld og hefjast þeir klukkan 21:00. Nokkrir kórfélaga koma fram sem einsöngvarar en tuttugu og einn kórfélagi af tuttugu og sjö eru í söngnámi ýmist við söngdeild Kórskóla Langholtskirkju eða öðrum tónlistarskólum.

Meðal verka á tónleikunum er A Little Jazz Mass eftir Bob Chilcott sem samin var árið 2004 og frumflutt í New Orleans sama ár. Hún er samin við hinn klassíska, latneska messutexta; Kyrie, Gloria, Sanctus, Benedictus og Agnus Dei. Hver kafli sýnir mismunandi stíltegundir jazzins svo sem „groove funk“, rokk, ballöðu og blues.

Bob Chilcott fæddist 1955 og hefur alla ævi fengist við kórtónlist. Hann var í King’s College í Cambridge og kom þar oft fram sem einsöngvari m. a. í Requiem eftir Fauré (Pie Jesu). Í tólf ár söng hann með hinum heimsfrægu King’s Singers en árið 1997 sneri hann sér alfarið að tónsmíðum, mest kórtónlist og stór hluti hennar fyrir barna og unglingakóra. Hann er líka eftirsóttur stjórnandi og hefur verið gestastjórnandi heimsþekktra kóra í yfir tuttugu löndum í sex heimsálfum.

Auk messunnar flytur kórinn fjölbreytt verk bæði sígild og jazzkend s. s. Sérstaklega má lofa eina þá eftir Báru Grímsdóttur, verk sem Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi fyrir kórinn, syrpu af Bítlalögum, What a wonderful world og glæsiverkið Cantate Domino eftir Rupert Lang.

Gradualekórinn hefur farið í tónleikaferðir til Danmerkur. Færeyja, Portúgal (EXPO 98), Canada, (Niagara Falls International Music Festival og Nýja Íslands), Finnlands (2001) (kórakeppni í Tampere, næstbesti árangur barnakóra). Sumarið 2003 var kórinn boðinn í tónleikaferð til Finnlands þar sem hann var, einn fimm kóra úr fjórum heimsálfum, gestur á Sympatti kórahátíðinni. Árið 2005 fór kórinn í tónleikaferð um Baskahéruð Spánar og hélt einnig tónleika í Barcelóna. Vorið 2007 fór kórinn í tónleikaferð til Slóveníu. Sumarið 2009 tók kórinn þátt í alþjóðlegu tónlistarkeppninni í Olomouc í Tékklandi og hreppti silfurverðlaun í flokki afburða (superior) æskukóra og gullverðlaun í flokki kirkjutónlistar.

Síðast liðinn vetur tók hann þátt í flutningi á Carmina burana eftir Orff með Sinfóníuhljómsveit Íslands og fékk þá umsögn að hann „söng sérlega fallega, af yndisþokka sem var ekki af þessum heimi.“

Miðaverð er 2.000 krónur og 1.000 krónur fyrir eldri borgara og skólafólk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir