Gómsæt önd í appelsínusósu í aðalrétt

Það voru hjónin Guðmundur Kristján Hermundsson og Nanna Andrea Jónsdóttir á Sauðárkróki sem buðu upp á nokkrar girnilegar uppskriftir í árslok 2008. Þau skoruðu á hjónakornin á Narfastöðum þau Rósu Maríu Vésteinsdóttur og Berg Gunnarsson að koma með næstu uppskrift úr Skagafirði.

 

 

Forréttur. 

Skelfisksúpa ilmandi af karrý og kókos fyrir 6

  • 1 l vatn
  • 1 dl hvítvín (mysa)
  • 1/3 lítill blaðlaukur (græni hlutinn)
  • 1 stk gulrót
  • 1 msk tómatmauk
  • 1 stk sellerístilkur
  • 1 stk hvítlauksgeiri
  • 1 ½  tsk Madras karrýduft
  • 2 stk fiskteningar ( Knorr)
  • 4 stk súputeningar ( Maggi)
  • 2 dl rjómi
  • 1 dós kókosmjólk (4 dl )
  • salt og pipar

 

Smjörbolla
50 g smjörlíki

  • 50 g hveiti

 

Fiskur

  • 100 g skelflettur humar
  • 100 g rækjur
  • 100 g hörpuskel

 

Grænmeti í súpu

  • ½ stk rauð paprika í teningum
  • ½ búnt söxuð steinselja

 

Aðferð
Grófsaxið grænmetið og steikið í olíu ásamt karrýinu og tómatmauki. Bætið í vatni og hvítvíni (eða mysu) ásamt teningum og hvítlauk. Látið sjóða í 15 mín. Sigtið og bakið upp með smjörlíki og hveiti. Bætið kókosmjólkinni í og bragðbætið með salti og pipar. Setjið rjómann í ásamt fisknum, paprikunni og steinseljunni. Látið sjóða í 2-3 mín. Berið fram strax þannig að fiskurinn ofsjóði ekki í súpunni. Sem meðlæti er gott að hafa snittubrauð með hvítlaukssmjöri.

 

Aðalréttur. 

Önd í appelsínusósu með ávaxtasalati

  • Önd (um 3 ½ kg)
  • salt og pipar
  • 400 g súr græn epli
  • 50 g þurrkaðar aprikósur
  • 2 greinar timjan
  •  ½ l vatn
  • 2-3 tsk andarkraftur (ef þarf )
  • sósujafnari
  • Grand Mariner

 

Ávaxtasalat

Blandaðir ávextir t.d

  • 1 stjörnuávöxtur
  • 2 fíkjur
  • 1 passionávöxtur
  • eða aðrir framandi ávextir
  • 2 dl appelsínulíkjör
  • 100 g ósaltaðar
  • pistasíuhnetur

 

Aðferð

Önd: Hreinsið öndina vel að innan og þerrið með eldhúspappír. Nuddið hana vel með salti og pipar. Afhýðið epli fjarlægið kjarna og skerið í báta. Fyllið öndina með eplabátum og aprikósum ásamt grófsöxuðu timjani. Bindið lappirnar saman og setjið öndina á ofngrind með bringuna niður og hafið ofnskúffu undir. Steikið í 250°C heitum ofni í 15 mínútur og snúið henni við. Lækkið hitann í 160°C og steikið áfram í 15 mínútur. Hellið vatni í ofnskúffuna og steikið áfram í 1 ½ klukkutíma. Bætið við vatni ef þörf krefur.

Sósa: Takið öndina úr ofninum og haldið henni heitri. Hellið soðinu í pott og kælið. Fleytið feytinni ofan af. Hleypið upp suðu og bætið 2-3 teskeiðum af andarkrafti út í ef þið viljið. Kryddið með salt og pipar. Þykkið með sósujafnara og bragðbætið með appelsínulíkjör, ef vill.

Ávaxtasalat: Skerið ávextina í sneiðar. Raðið sneiðunum til skiptis á fat. Dreypið líkjör á og dreifið söxuðum pistasíuhnetum yfir. Setjið plastfilmu yfir og geymið í ísskáp í tvo klukkutíma. Berið fram kalt eða setjið í heitan ofn í 10-15 mínútur.

Meðlæti: Berið fram með sykurgljáðum kartöflum. Með öndinni er hægt að hafa flestar tegundir framandi ávaxta sem fást hverju sinni.

 

Eftirréttur:

  • Súkkulaðimús (einföld og létt)
  • 2 dl rjómi
  • 300 g suðusúkkulaði
  • 100 g sykur
  • 4 stk egg
  • 2 dl rjómi

Hitið rjómann að suðu og hellið yfir saxað súkkulaðið. Þeytið egg og sykur á meðan. Þeytið 2 dl af rjóma, blandið eggjunum saman við rjómann og svo súkkulaðinu. Hrærið mjög varlega með sleikju, setjið í glös eða skál. Kælið í ca. 3 tíma.

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir