Góður taktur í liði Tindastóls í Kjarnafæðismótinu
Leikið var um toppsætið í B-deild karla í Kjarnafæðismótinu í knattspyrnu í Boganum á Akureyri í gærkvöldi. Lið Tindastóls og Hamranna voru bæði með níu stig að loknum þremur leikjum, höfðu unnið alla sína leiki, og aðeins eftir að skera úr um hvort liðið endaði á toppnum. Þegar til kom þá reyndust Stólarnir sterkari og unnu öruggan 5-0 sigur.
Lið Tindastóls varð fyrir áfalli strax á áttundu mínu þegar varnarjaxlinn frá Vopnafirði, Sverrir Hrafn, varð að yfirgefa völlinn en í hans stað kom grjótharði Grenvíkingurinn Ísak (sem entist reyndar bara fram í hálfleik). Stólarnir náðu forystunni með marki Benedikts Kára Gröndal og leiddu 1-0 í hálfleik.
Addi Ólafs gerði næstu tvö mörk Tindastóls, það fyrra á 52. mínútu og það seinna á 71. mínútu, og á 73. mínútu bætti Jónas Aron við fjórða markinu. Fimmta og síðasta mark leiksins gerði Vestur-Húnvetningurinn Emil Óli Pétursson á 88. mínútu en hann hafði komið inn fyrir Ísak í hálfleik.
Allir leikmenn Tindastóls sprettu úr spori í leiknum. Áður hefur verið sagt frá Sverri, Ísak og Emil en einnig var gerð markmannaskipting eftir klukkutímaleik þegar Anton Helgi kom í markið í stað Einars Ísfjörð. Bragi Skúla leysti Hólmar Daða bróðir sinn af á 79. mínútu og við sama tækifæri kom Kristófer Yngva inn fyrir Benedikt Kára. Á 84. mínútu var svo trommari tekinn út af fyrir hljómborðsleikara (Eysteinn kom inn fyrir Jóhann Daða) og virtist það ekki taka taktinn úr liði Tindastóls. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum Feykis áttu ungu strákarnir flottan leik og má þar nefna Sigurð Pétur, Einar í markinu og Benedikt Gröndal sem auk þess að skora fyrsta markið lagði upp tvö til viðbótar. Sigurinn þótti sanngjörn.
En hvað um það; fjórir fínir leikir að baki hjá liði Tindastóls sem ætlar greinilega að koma vel samstillt og í toppformi til leiks í sumar. Keppni í Lengjubikarnum hefst í byrjun mars en þar tekur lið Tindastóls þátt í riðli 6 í C-deildinni en auk Stólanna eru lið Álafoss (Mosfellsbæ), Berserkir (B-lið Víkings R.), KB (Breiðholti) og Samherjar (Eyjafirði) í riðlinum. Stefnt er að heimaleik á Króknum gegn KB 13. mars og Mosfellingar mæta 2. apríl.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.