Góður gangur í vinnu við slit byggðasamlaga

Húnahornið segir frá því að á fundi byggðarráðs Húnabyggðar í síðustu viku var lögð fram stöðuskýrsla KPMG þar sem fjallað er um slit þriggja byggðasamlaga, þ.e. um atvinnu- og menningarmál, tónlistarskóla og félags- og skólaþjónustu.

Á fundinum kom fram að vinna við slit þessara samlaga sé í fullum gangi og að hún gangi mjög vel. Frá áramótum hefur Húnabyggð tekið yfir byggðasamlag um menningar- og atvinnumál og Skagaströnd hefur tekið við rekstri tónlistarskólans. Sveitarfélögin tvö kaupa svo þjónustu hvort af öðru sem tengjast starfseminni.

Flóknustu slitin eru sögð vera á félags- og skólaþjónustunni en að samningsdrög sveitarfélaganna um þjónustu í þeim málaflokki hafi verið sent til stjórnvalda og er reiknað með að Húnabyggð taki yfir þjónustuna á vormánuðum.

„Samhliða þessum slitum eru sveitarfélögin að nota tækifærið og semja sín á milli um ýmiskonar þjónustu. Verkefnið er í heild sinni töluvert flókið og mikið af smáatriðum sem þarf að finna út úr, töluvert safn eigna fylgir þessu og ýmiskonar skyldur og þátttaka í samstarfi utan svæðisins,“ segir í fundargerð byggðarráðs Húnabyggðar.

Heimild: Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir