Góðir partýréttir

Matgæðingar Feykis að þessu sinni eru þau Oddný Jósefsdóttir og Þorbjörn Ágústsson ábúendur á Sporði í Húnaþingi vestra. Þau bjóða upp á rétti sem eru einkar hentugir í partýið s.s. partýbollur í súrsætri sósu, perurétt og gómsæta prinsessuköku.

Kjötkúlur (partýbollur) fyrir þrjá

  • 200 gr. kjöthakk
  • 1 msk. púrrulaukssúpa
  • 10 stk. saltkex

Kexið brotið niður og allt hrært saman og búnar til litlar kúlur og settar í ofnskúffu, bakað í  10 – 15 mín við 200°C í ofni.  Hrært í af og til meðan steiking fer fram. Gott er að hafa soðin hrísgrjón og súrsæta sósu með.

Súrsæt sósa

  • 1dl. chilisósa
  • 2 msk. rifsberjahlaup
  • 1 msk. púðursykur

Soðið saman við vægan hita í 2 – 3 mín.

Kaldar perur

  • 1 dós perur
  • ½ l rjómi
  • 20 – 30 stk. makkarónukökur
  • 200 gr. Síríus suðusúkkulaði (konsum)
  • Hnetur að vild

Leggið makkarónurnar á fat og vætið með perusafanum.  Skerið perurnar niður og raðið þeim ofan á. Stráið hluta af súkkulaðinu yfir. Þeytið rjómann og bragðbætið með ögn af vanillu og sykri. Smyrjið þeyttum rjómanum yfir perurnar og stráið afganginum af súkkulaðinu yfir.  Látið standa í a.m.k. 1 klst. áður en borið er fram.

Prinsessukaka

  • 250 gr. hveiti
  • 1 ½ dl. mjólk
  • 100 gr. smjörlíki
  • 1 skeið perluger
  • 1 msk. sykur

Krem

  • 1 ¼ dl mjólk
  • 2 tsk kartöflumjöl
  • 1 skeið sykur
  • 1 egg

Allt sett í pott og soðið saman, hræra í á meðan.

Fylling

  • 50 gr. smjör
  • 50 gr. dökkur púðursykur
  • ½  msk. Hveiti

Deigið látið hefast og slegið niður, skipt í tvo helminga, annar flattur út og settur í botn og upp með hliðum í hringmót, fylling sett á og hinn hlutinn flattur út og eggjakreminu smurt á og deiginu rúllað upp, skorið niður og raðað á, ekki mjög þétt, látið lyfta sér og bakað við 180 – 200°c þar til kakan er orðin fallega brún og vel bökuð.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir