Góð byrjun Stólastúlkna eftir COVID-pásuna

Bryndís Rut var í stuði í dag. MYND: ÓAB
Bryndís Rut var í stuði í dag. MYND: ÓAB

Fyrsti leikur Stólastúlkna að loknu COVID-hléi fór fram á Króknum í dag en þá kom sprækt lið Aftureldingar í heimsókn á gervigrasið. Mur kom heimastúlkum yfir snemma leiks en leikurinn var í jafnvægi þangað til klukkutími var liðinn af leiknum en þá fékk Taylor Bennett að líta rauða spjaldið og þjálfari gestanna leit sama lit í kjölfarið. Heimastúlkur nýttu sér liðsmuninn og gulltryggðu góðan sigur með því að bæta við þremur mörkum. Lokatölur 4-0 og Mur með þrennu.

Lið Tindastóls tefldi fram þremur nýjum leikmönnum í dag í byrjunarliði þegar leikið var í sól og sumaryl á Króknum og áttu þær allar ágætan leik þrátt fyrir að hafa lítið æft með sínu nýja liði. Eins og oft áður voru mótherjar Tindastóls liprari á boltanum og spiluðu betur sín á milli en vörn Tindastóls var sterk og beina leiðin fram nýttist liðinu vel eins og svo oft áður. Murielle Tiernan gerði fyrsta mark leiksins þegar hún nýtti styrk sinn og hraða og komst  inn fyrir vörn gestanna á 16. mínútu og skoraði af öryggi. Hún fékk tvö önnur dauðafæri í fyrri hálfleik en brást bogalistin. Lið Aftureldingar var ekki síðra liðið en þeim gekk illa að skapa sér færi og staðan 1-0 í hálfleik.

Gestirnir skoruðu mark snemma í síðari hálfleik sem dæmt var af þar sem dómarinn taldi að brotið hefði verið á leikmanni Tindastóls áður. Smám saman jókst pirringurinn í liði gestanna og stanslaust dómaranöldur var ekki að gefa mikið – eiginlega síður en svo. Lið Tindastóls var fast fyrir og gaf ekki þumlung eftir eins og eðlilegt er. Eftir að gestirnir tóku aukaspyrnu á 61. mínútu og sendu boltann inn á teig Tindastóls þar sem heimastúlkur komu boltanum burtu, fékk Taylor Bennett rautt spjald. Sennilega fyrir að slá til leikmanns Tindastóls. Þjálfari gestanna gerðist hávær og krafðist skýringa og fékk þá sjálfur að líta rauða spjaldið. Fimm mínútum síðar bætti Rakel Sjöfn Stefánsdóttur við öðru marki fyrir Tindastól með góðu skoti og nú voru allar sóknir Stólastúlkna hættulegar. Lið Aftureldingar gafst ekki upp og reyndi að sækja en komst lítt áleiðis. Mur bætti við tveimur týpískum Mur-mörkum, því fyrra á 72. mínútu og því síðara á 89. mínútu eftir frábæra sendingu frá Bergljótu.

Að leik loknum fékk síðan aðstoðarþjálfari Aftureldingar að líta rauða spjaldið þannig að Mosfellingar náðu í hat-trick á þeim vígstöðvum. Ekki efnilegt!

Það var eins og oft áður að lið Tindastóls hélt boltanum ekki vel innan liðs framan af leik og það gekk ekki vel að koma Jackie í takt við leikinn en hún er búin að stríða við meiðsli undanfarið. Vörnin hélt hins vegar vel og þar stjórnaði Bryndís umferðinni eins og herforingi. Lára Mist Baldursdóttir var sterk sem djúpur miðjumaður, var fín á boltanum og vinnusöm. Hugrún og Rakel Sjöfn voru mjög líflegar á köntunum þegar leið á leikinn og vörn gestanna opnaðist. Mur var síðan sjálfri sér lík uppi á toppnum, endalaust hættuleg og viljug og uppskar  verðskuldað hat-trick.

Næstkomandi sunnudag mætast síðan toppliðin í Lengjudeildinni öðru sinni en þá fara Stólastúlkur í heimsókn til Keflavíkur. Þar væri sannarlega sterkt að ná úrslitum. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir