Gleðilegt sumar!
Sumardagurinn fyrsti er í dag og óskar Feykir lesendum gleðilegs sumars. Þessi ágæti dagur virðist ætla að bjóða upp á sumarveður í dag, hitinn á Norðurlandi vestra víðast hvar á bilinu 10-14 gráður, glampandi sól og suðvestanátt, samkvæmt spá Veðurstofunnar. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að fagna komu sumars með því að stökkva í stuttbuxur í tilefni dagsins. Þeir sem vilja halda daginn hátíðlegan gætu kíkt á Hvammstanga í dag en þar er að venju dagurinn tekinn með trompi.
Það má kannski segja að Sumardagurinn fyrsti megi muna sinn fífil fegurri. Hér áður fyrr var þetta einn mesti gleðidagur ársins og sá siður að gefa börnum sumargjöf notalegur. Fólk þyrptist í skrúðgöngu og á eftir fylgdi talsverð dagskrá sem margir sóttu. Nú hefur dregið að miklu leyti úr hátíðarhöldum á þessum góða degi og þegar Feykir kíkti yfir heimasíður sveitarfélaganna
á Norðurlandi vestra þá var það aðeins í Húnaþingi vestra sem dagskrá er auglýst.
Hátíðarhöld á Hvammstanga
Á Hvammstanga verður haldið upp á Sumardaginn fyrsta á hefðbundinn hátt í dag en þar er rík hefð fyrir hátíðarhöldum í tilefni af komu sumars
–Hátíðin hefst með skrúðgöngu frá Félagsheimilinu á Hvammstanga klukkan 13:30. Farinn verður hefðbundinn hringur með viðkomu á Sjúkrahúsinu. Að lokinni skrúðgöngu verður boðið til hátíðar í Félagsheimilinu. Þar afhendir m.a. Vetur konungur Sumardísinni veldissprota sinn. Börn úr yngstu bekkjum grunnskólans skemmta með söng. Öllum er síðan boðið í glæsilegt sumarkaffi. Á eftir verður spilað bingó þar sem glæsilegir vinningar verða í boði. Nýjir búningar á alla þátttakendur sem Félag eldri borgara í Húnaþingi vestra hefur saumað og útvegað verða vígðir við þetta tækifæri,“ segir á heimasíðu Húnaþings.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.