Gjöfin dýra – skuldabagginn
„Íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki við þá endurreisn sem framundan er í atvinnulífinu. Því er mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma. Jafnframt er mikilvægt að sátt ríki í samfélaginu um stjórn fiskveiða.“ Þannig hefst stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar í fiskveiðimálum.
Skuldir sjávarútvegsins
Eftir að þessi orð voru sett á blað hafa komið í ljós uggvænlegar upplýsingar um skuldastöðu sjávarútvegsins. Í opinberum kynningarritum LÍÚ frá síðasta ári eru skuldirnar sagðar um 550 milljarðar króna. Svör hafa enn ekki fengist við fyrirspurn sem ég lagði fram á Alþingi skömmu fyrir jól um skuldir sjávarútvegsfyrirtækja. Því er erfitt að fullyrða nákvæmlega um skuldastöðuna, en varla er hún lægri en samtök útvegsmanna hafa sjálf gefið upp.
Til samanburðar má nefna að þetta er meira en helmingi hærri upphæð en ætla má að standi eftir af Icesave-skuldinni þegar eignir Landsbankans hafa verið gerðar upp. Sé miðað við sömu vexti lætur nærri að vaxtabyrðin af skuldum sjávarútvegsins (án þess að greitt sé inn á lán) sé um 27 milljarðar á ári. Það jafngildir 88 þkr á hvert mannsbarn í landinu, eða 156 þkr á hvern launamann.
Skuldir sjávarútvegsins eru vaxtaberandi skuldir sem að meginþorra til eru erlend lán. Því má segja að arðurinn af íslenskum sjávarútvegi renni úr landi. Við Íslendingar erum í þeim skilningi leiguliðar hinna erlendra kröfuhafa.
Þannig er komið fyrir þessari undirstöðuatvinnugrein sem byggist á nýtingu fiskveiðiauðlind okkar – „gjöfinni“ dýru sem útvegsmönnum var færð í hendur þegar kvótakerfinu var komið á í núverandi mynd með því að veiðiheimildunum var skipt milli þeirra endurgjaldslaust. Þeir sem fengu veiðiheimildirnar ókeypis hafa síðan hagnast á því að selja þær og leigja frá sér, og í mörgum tilvikum hagnast betur á útleigunni heldur en því að veiða fiskinn. Þá hafa veiðiheimildirnar verið veðsettar langt umfram greiðslugetu atvinnugreinarinna – þær hafa gengið sem hver annar viðskiptavarningur, leiguverðmæti, erfða- og skiptagóss.
Hver á fiskinn í sjónum?
Er þetta í einhverju samræmi við vilja löggjafans? Í fyrstu grein fiskveiðistjórnunarlaga segir skýrt og skorinort:
„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“
Þrátt fyrir þetta skýra ákvæði hafa staðið harðar deilur milli útgerðar og stjórnvalda í þrjá áratugi um eignarhald og ráðstöfunarrétt á veiðiheimildunum.
Útgerðarmenn vísa í 72. gr. stjórnarskrárinnar sem segir: „Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“
Þeir sem vilja breytingar á kvótakerfinu benda hins vegar á 75. grein stjórnarskrárinnar sem segir: „Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“
Og hér stendur hnífurinn í kúnni. Löggjafinn álítur fiskveiðiheimildirnar vera eign þjóðarinnar, útvegsmenn líta á þær sem einkaeign.
Í þjóðarrétti er þung hersla lögð á rétt þjóða til að njóta auðlinda sinna. Samkvæmt yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna nr. 1803 frá 1962 á nýting náttúruauðlinda „að þjóna hagsmunum og auka velmegun fólks í viðkomandi ríki“.
Um þetta verður nánar fjallað í næstu grein.
Höfundur er varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.