Fyrsti æfingaleikurinn í körfunni á föstudag
Þá eru körfuboltakempur komnar í startholurnar en fyrsti æfingaleikur haustsins verður annað kvöld á Króknum. Þá mæta Þórsarar úr Þorlákshöfn á parkettið í Síkinu og hefst baráttan kl. 19:15. Að sögn Ingólfs Jóns Geirssonar, formanns körfuknattleiksdeildar Tindastóls, þá eru allir leikmenn komnir í hús og til í slaginn nema Shawn Glover en Ingó vonar að það sé stutt í að hann skili sér í Skagafjörðinn.
Fyrsti leikur Tindastóls í Dominos-deildinni fer fram 1. október nk. en þá mæta Breiðhyltingar í ÍR í Síkið. Þangað til verður talsvert um æfingaleiki samkvæmt upplýsingum Feykis. „Eins og staðan er i dag eru æfingaleikir 11. septemberí Síkinu á móti Þor Þorlákshöfn, 18. september spilum við að heiman gegn Stjörnunni í Garðabæ, þann 21. sept. er leikur í Síkinu gegn Þór Akureyri og 24. september tökum við á móti liði Hattar í Síkin,“ segir Ingó.
Aðspurður um hvaða reglur gildi í Síkinu vegna Covid-19 og sóttvarnareglna segir hann: „Akkúrat núna erum við með leyfi fyrir 200 áhorfendur sem fæddir eru fyrir 2004 með eins meters fjarlægð milli ótengdra aðila, fyrstur kemur fyrstur fær, sami inngangur og venjulega, sjoppa og hamborgarasala. Nóg pláss fyrir alla.“ Ingólfur segir að TindastóllTV sé með í skoðun hvaða æfingaleikir verði sýndir.
Kemur Kristófer Acox á Krókinn? „Kristófer kemur vonandi á Krókinn í vetur til að spila körfubolta.... en því miður ekki í Tindastólsbúning,“ segir Ingó að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.