Fyllt geitalæri í aðalrétt
Heiðrún Guðmundsdóttir Herbalife dreifingaraðili og Rúnar Jónsson bifvélavirki á Sauðárkróki gáfu lesendum Feykis gómsætar uppskriftir fyrir sléttum þremur árum. Það er ekki oft sem fólk er með geitakjöt í uppskriftum en hér er það í aðalrétt. Heiðrún og Jón skoruðu á Hilmar Baldursson og Aðalbjörgu Hallmundsdóttur, Grenihlíð 4 á Sauðárkróki að koma með uppskriftir að tveimur vikum liðnum.
Forréttur:
- Rækjukokteill fyrir 4
- 500 g rækjur
- ½ haus ís-salat
- 200 g majones
- 40 g tómatsósa
- Skvetta af hvítvíni (má sleppa ef vill) eða nota sítrónusafa eftir smekk
- Sítróna
- Aromat og pipar eftir smekk
Skerið íssalatið fínt niður og setjið í litla skál eða smekklegt grunnt glas á fæti og setjið rækjurnar (þiðnar og búið að láta renna af þeim) ofan á. Hrærið saman majonesinu, tómatsósunni, hvítvíninu/sítrónusafanum og kryddið eftir smekk. Skellið smá slurk af blöndunni ofan á herlegheitin. Skerið fallega sneið af sítrónu og setjið hana klofvega á glasbarminn. Þennan rétt má líka stækka og bera fram, þar sem allt er sett saman í stóra skál og rækjukokteillinn settur ofan á ristað brauð og síðan smá sósa þar yfir (mjög sniðugt í veislur eða klúbbakvöld).
Aðalréttur: Fyllt geitalæri
- 1 stk geitalæri (úrbeinað heilt og leggur snúinn úr)
- 3 geirar hvítlaukur (saxaður)
- 1 búnt steinselja
- 2 msk. olífuolía
- 150 g fetaostur, hreinn
- 100 g sólþurrkaðir tómatar (grófsaxaðir)
- 3 msk. grænt pestó
- Salt og pipar
Hvítlaukur og steinselja eru sett í matvinnsluvél ásamt olífuolíu og maukað vel saman. Þar næst er blandað saman fetaosti, tómötum og pestói ásamt helmingnum af hvítlauksmaukinu og geitalærið fyllt með þessu. Hinum helmingnum er nuddað utan á geitalærið og það kryddað með salti og pipar. Steikt í ofni við 180° hita í u.þ.b. 40 mín. Fer eftir þyngd lærisins. Borið fram með salati, heitri sveppasósu eða kaldri sósu eftir smekk hvers og eins og ofnbökuðu grænmeti í olíu: Sætar kartöflur eða venjulegar kartöflur (má líka hafa saman), sveppir, laukur og paprikur sett í eldfast mót, slatti af olíu og smávegis af grófu salti stráð yfir og bakað við 180° hita þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn.
Eftirréttur:
Dásamlega rjómakennt súkkulaðifrauð með sætu peruívafi fyrir 4
Sumt er svo ljúffengt að maður verður að leyfa öðrum að njóta þess með sér.
- 4 skammtar Formúla 1 (hristingur frá Herbalife) með súkkulaðibragði
- 2 dósir af perum
- 4 eggjahvítur
- 200 ml undanrenna
Þeytt vel saman í blandara, sett í skálar og geymt í ísskápnum yfir nótt. Þegar frauðið er borið fram má setja ferskar perusneiðar á skálabarmana og súkkulaðispænir yfir.
Verði ykkur að góðu!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.