Furðuhegðun skötusels
Margar mikilvægar tillögur eru í nýju frumvarpi til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða. Sumar þeirra eru mjög aðkallandi en ljóst að á hverjum tíma þarf stöðugt að endurskoða lög og reglur sem í gildi eru um veiðar fiskiskipa við Ísland. Það verður aldrei fundin hin endanlega lausn í þeim efnum því aðstæður breytast stöðugt og kyrrstaða óhugsandi. Á sama hátt verður á hverjum tíma að gera kröfur um ákveðið réttlæti í fiskveiðistjórnunarkerfinu.
Að undanförnu hefur borið á gagnrýni frá útgerðarmönnum, ekki síst þeim sem ráðið hafa mestu af aflamarki í skötusel og samtökum atvinnulífsins vegna tillagna um breytt fyrirkomulags veiða. Ýmsir aðrir hafa þó stutt þetta eindregið. Hér þarf að hafa í huga að verið er að bregðast við miklum breytingum sem orðið hafa á útbreiðslu og aflamagni skötusels. Verulegar vistkerfisbreytingar hafa átt sér stað í hafinu kringum Ísland síðustu ár. Nýjar tegundir eru að hasla sér hér völl á meðan útbreiðsla sumra hefur gefið eftir.
100% aukning aflamarks
Aflamark í skötusel tvöfaldaðist frá 2001 þegar það var ákveðið 1.350 tonn og úthlutað í fyrsta sinn fram til 2008/2009, þegar aflamarkið var ákveðið 2.700 tonn. Þar sem aflamarkinu var í upphafi úthlutað á veiði við suðurströnd landsins, hafa skipin á því svæði og útgerðir þeirra fengið ráðstöfunarrétt á stærstum hluta af skötuselsaflamarkinu. Það þætti ekki slæmt hjá útgerðum almennt, ef úthlutað aflamark þeirra í tonnum hefði aukist um 100% í öðrum tegundum á sl. 7-8 árum. Útgerðir skipa frá Hornafirði í austri og Þorlákshöfn í vestri hafa nú um 60% af skötuselsaflamarkinu. Benda má á að úthlutun fiskveiðiárið 2009/2010 til núverandi aflahlutdeildarhafa er í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar.
Fimm bátar af Snæfellsnesi greiddu 281 mkr. í leigu á fimm árum
Samkvæmt aflaupplýsingum Fiskistofu var landað 1.011 tonnum af skötusel á vestanverðu landinu fiskveiðiárið 2006/2007 en 927 tonnum á Suðurlandi sama fiskveiðiár. Tveimur árum síðar, fiskveiðiárið 2008/2009, var landað á Suðurlandi 582 tonnum en á Vesturlandi 1.889 tonnum. Á fiskveiðiárinu 2008/2009 var 70% aflans, fyrir utan það sem flutt var óvigtað út, landað á Vesturlandi en 30% aflans landað á Suðurlandi. Fyrir aldamót var nánast allur aflinn sunnanlands. Breytingin á útbreiðslu skötusels er því ótrúleg. Útgerðir Vestanlands hafa þurft að leigja til sín skötuselsaflamark til þess að geta mætt vaxandi heildarafla skötusels á þeirra miðum. Sem dæmi má nefna að 5 bátar frá Snæfellsnesi af minni gerðinni öfluðu á fimm fiskveiðiárum 2004/2005 til 2008/2009, samtals um 1.900 tonn af skötusel fyrir 656 milljónir króna en greiddu í leiguverð fyrir óveiddan skötusel 281 milljónir króna.
Ellefu kvótahæstu bátarnir leigja frá sér 83%
Af 15 kvótahæstu útgerðum landsins í skötusel leigja 11 þeirra frá sér 83% af skötuselsheimildum sínum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið boðaði strax í júlí sl. í fréttatilkynningu að það ætlaði að leggja til breytingar á úthlutun veiðiheimilda í skötusel. Það væri skynsamlegt og réttlátt að bregðast við og setja viðbótarafla í breyttan farveg. Þegar nýjar tegundir sækja inn á okkar hafsvæði og ný svæði kringum landið á að sjá til þess að frelsi til veiða verði aukið með nýju aðgengi þeirra sem nýtt geta til þess að gera sem mest verðmæti úr sjávaraflanum. Tekjurnar af leigu skötusels koma sér afar vel í verkefni í rannsóknum og til byggðamála. Tekið er í frumvarpinu tillit til landnáms skötusels á nýjum svæðum við landið og fleiri útgerðum, ekki síst í þeim landshlutum auðveldað að nýta skötuselinn með arðbærum hætti gegn hóflegu gjaldi. Sú nálgun er nærtækari og réttlátari en að viðhalda því leigukerfi óbreyttu sem nokkrir útgerðarmenn hafa mikinn arð af án mikillar fyrirhafnar. Skýrt er tekið fram að þessir útgerðamenn eru eingöngu að nýta sér þá möguleika á löglegan hátt sem núverandi fiskveiðistjórnarkerfi býður upp á.
Lokaorð
Það verður fróðlegt að fylgjast með því hversu hröð útbreiðsla skötusels verður um Íslandsmið næstu árin ef hlýsjórinn heldur áfram að streyma af auknum krafti umhverfis landið. Þeirri spurningu er síðan ósvarað hvort þessi „fríðleiksfiskur“ er afkastamikill afræningi á aðrar kvótasettar fisktegundir og hvert veiðiálagið á þá að vera. Eitt er víst að það sem etið er af einum verður ekki etið aftur í sama lífsformi.
Nýtt frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveða felur í sér ráðstafanir í samræmi við stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar um brýnar aðgerðir vegna stjórnunar fiskveiða. Ákvæðið um skötuselinn er tímabundið og einstakt að því leyti að það tekur á nær fordæmislausum breytingum á útbreiðslu nýrrar tegundar, sem eru tilkomnar vegna loftslagsbreytinga. Stofnar skötusels standa afar vel og nýliðun hefur verið góð mörg undanfarin ár, svo góð að sú réttmæta spurning vaknar, hvort ekki sé rétt að stýra sókn í aukninguna með öðrum aðferðum. Í þessu sambandi tiltek ég, að verði frumvarpið að lögum, mun væntanleg aflaaukning, sem alls ekki liggur fyrir hver yrði, metin af varfærni þannig að tryggt sé að ekki hljótist óbætanlegur skaði af. Ég mun að sjálfsögðu leita álits sérfræðinga m.a. umsagnar Hafrannsóknastofnunar og ætla henni að meta sjálfstætt áhættuna af slíkri aukningu. Á sama hátt verða settar reglur um þessar veiðar sem tryggja góða umgengni við auðlindina.
Jón Bjarnason,
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.