Fúnar stoðir burtu vér brjótum! - hátíðarræða 1. maí

Þórarinn Sverrisson í ræðustól þann 1. maí sl.

Ég vil byrja á að óska okkur öllum til hamingju með daginn. Enn á ný erum við saman komin til að fylgja eftir kröfum okkar og sjónarmiðum um betri kjör og réttindi til handa launafólki. Á þessum degi er einnig ástæða til að horfa yfir farinn veg og leggja mat á hvað hefur áunnist – og hvað er framundan.

 

Byggjum réttlátt þjóðfélag er yfirskrift aðgerða íslensku verkalýðshreyfingarinnar í dag. Þetta er tilvísun í alþjóðlegan baráttusöng verkafólks – internationalinn, sem hefst á orðunum: Fram þjáðir menn í þúsund löndum!

Fyrir ári síðan hefði mörgum þótt það langt gengið að draga fram internationalinn á fyrsta maí – eða Nallann eins og söngurinn er kallaður í daglegu tali. Einhverjir hefðu sagt að hann væri bæði gamall og úreltur. Það getur vel verið rétt að hann sé gamall, en hann er langt frá því að vera úreltur.

Atburðir síðustu mánaða beinlínis kalla á kröfuna um réttlátt þjóðfélag. Sem betur fer er íslensk alþýða almennt ekki sárþjáð og sem betur fer hafa glímutök skortsins ekki verið áberandi í íslensku þjóðfélagi síðustu ár og áratugi.

Við skulum velta því fyrir okkur af hverju.

Það er full ástæða til þess á þessum baráttudegi launafólks að fara um það nokkrum orðum af hverju við erum þar sem við erum.

Það er alveg ljóst, að íslenskt samfélag væri ekki jafn auðugt og þróað og það er, ef ekki hefði notið starfskrafta íslensks launafólks. Ríkidæmið sem við búum við – þrátt fyrir allt – er tilkomið vegna þrotlausrar vinnu almennings á Íslandi.

Það er ekki síður ljóst, að íslenskt samfélag byggi ekki við það þjónustustig og þá velferð sem raun ber vitni, ef ekki væri fyrir baráttu og störf verkalýðshreyfingarinnar.

Framsýni gömlu foringjanna var mikil. Við sjáum það þegar við horfum yfir farinn veg. Að baki foringjunum stóð blásnauð alþýðan. Það er því samstaða launafólks sem hefur gert íslenskt samfélag að því sem það er í dag.

Við skulum rifja upp nokkur mál sem beint má rekja til baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Allt eru þetta hlutir sem okkur þykja sjálfsagðir í dag – en þeir eru ekki sjálfsagðir. Það þurfti að berjast fyrir þeim og það verður að standa vörð um þá. Ef við gerum það ekki – þá er ekki öruggt að við göngum að þeim vísum á morgun.

Það eru ekki nema 80 til 100 ár síðan félagar okkar voru að berjast við að fá viðurkenndan samningsrétt og að fá viðurkennt að lágmarkskaup verkafólks væri greitt samkvæmt taxta verkalýðsfélaga. Á sama tíma var barist fyrir því að félagar í verkalýðsfélögum gengju fyrir um vinnu og að allir væru félagar í verkalýðsfélögum. Þetta voru helstu viðfangsefnin á þeim árum sem verið var að stofna verkalýðsfélög vítt og breitt um landið.

Árið 1921 voru Vökulögin sett og með þeim var tryggt að togarasjómenn fengju a.m.k. 6 tíma hvíld á sólarhring. Þetta var lengt í 8 tíma árið 1927. Með Vökulögunum náðist gríðarlega mikilvægur áfangi í vinnuvernd.

Fyrstu lög um almennar slysatryggingar voru sett árið 1925 og fjórum árum síðar voru sett lög um verkamannabústaði.

 Árið 1936 voru sett lög um almannatryggingar. Mikilvægi þeirra verður seint ofmetið. Tveimur árum síðar var síðan fyrsta vinnulöggjöfin sett. Þessi lög, um stéttarfélög og vinnudeilur, segja til um hvernig samtök launafólks og atvinnurekenda skulu haga samskiptum sínum. Einn mikilvægasti þátturinn í þeim er að ekki megi greiða lægra kaup en samningar milli verkalýðsfélaga og atvinnurekenda kveða á um.  Þetta ákvæði hefur skipt launafólk meira máli en margir gera sér grein fyrir.

Nokkrum árum síðar, eða 1942, fékk allt íslenskt launafólk rétt til orlofs og árið 1955 náðust fram kröfur um stofnun atvinnleysistryggingasjóðs, eftir langt og strangt verkfall. Tveimur árum síðar var fæðingarorlof fyrst viðurkennt í kjarasamningum og árið 1961 var samið um sjúkrasjóðina.

Það var síðan ekki fyrr en árið 1969 – það eru ekki nema 40 ár síðan – að samið var um lífeyrissjóðina. Tíu árum síðar voru sjúkrasjóðirnir lögfestir.

Um aldamótin var síðan samið um fræðslusjóðina í kjarasamningum.

Þessi stutta upptalning er auðvitað ekki nema brot af því sem samtakamátturinn hefur skilað íslensku launafólki.

Góðir félagar,

Ég geri ekki ráð fyrir því að nokkurt okkar vildi sjá íslenskt samfélag þannig að launin okkar væru úttekt hjá kaupmanninum. Við vildum ekki sjá samfélag án slysa- og almannatrygginga, án laga um vinnuvernd, án atvinnuleysistrygginga, án sjúkrasjóða og lífeyrissjóða, án orlofs eða möguleika til menntunar.

Við skulum standa alveg klár á því að þetta eru ekki sjálfsagðir hlutir. Þeir eru til komnir vegna ákvarðana sem voru knúnar fram með baráttu. Við vitum að ef við stöndum ekki vaktina, þá verður sótt að þessum réttindum.

Frjálshyggjan gerði alvarlega atlögu að þessu velferðakerfi sem við höfum byggt upp. Sem betur fer tókst það ekki – en það hriktir í  stoðunum þessa dagana vegna efnahagshrunsins. Því var haldið fram af ýmsum að við þyrftum ekki á stéttarfélögum að halda vegna þess að grunnréttindin væru tryggð í lögum og að einstaklingarnir væru best til þess fallnir að semja – hver fyrir sig.

Hvernig væri ástandið á vinnumarkaðnum í dag ef svo væri?  

Allir sem ganga um með opin augun gera sér grein fyrir því að barátta verkafólks er jafn nauðsynleg í dag og hún var fyrir 100 árum.

Stærstu sigrar verkalýðsbaráttunnar hafa unnist þegar okkur hefur auðnast að vinna saman. Það er okkur að takast hér í Skagafirði. Samstarf félaganna þriggja - Öldunnar stéttarfélags, Verslunarmannafélags Skagfirðinga og Starfsmannafélags Skagafjarðar - hefur að mínu viti styrkt stöðu þeirra í héraðinu og jafnvel utan þess.

Það er mín sýn að hér í Skagafirði gætum við byggt upp mjög öfluga þjónustuskrifstofu alls launafólks. Það á ekki að skipta máli hvort fólk er í ASÍ félagi, BSRB eða BHM.  Svo lengi sem það býr eða starfar í Skagafirði þá á það vísa þjónustu í sinni heimasveit.  Um rekstur slíkrar skrifstofu gætu félög sameinast án þess að sameinast í eitt stéttarfélag. Það er að mínu viti aukaatriði, þó slíkt komi auðvitað til greina. Hitt er meira um vert að félagsmaðurinn geti átt greiðan aðgang að fólki sem vinnur fyrir hann. Því meiri þekking og kunnátta sem er til staðar - því betur getum við staðið velferðarvaktina. Það er mikilvægt sem aldrei fyrr að stéttarfélögin komi saman sem ein heild.

Persónulegur metnaður verður að víkja fyrir heildarhagsmunum launafólks og heimilanna í landinu. Ég trúi því og vona að okkur takist það.

Við megum aldrei missa sjónar á leiðarljósi samvinnu og samstöðu. Það getur reynst hættulegt málstað hreyfingarinnar og launafólks ef menn fara fram úr sér í baráttunni fyrir réttlæti. Við verðum að búa yfir þeim félagslega þroska að taka tillit til allra skoðana í verkalýðshreyfingunni og reyna að finna á þeim ásættanlega málamiðlun. Aðeins þannig farnast okkur vel og þá þarf íslenskt launafólk engu að kvíða í framtíðinni.    

Fúnar stoðir burtu vér brjótum – bræður fylkjum liði í dag.

Ágætu félagar. Við stöndum á ákveðnum tímamótum í dag. Sú græðgisvæðing auðhyggjunnar sem hefur tröllriðið samfélaginu undanfarin ár hefur keyrt íslenskt efnahags- og atvinnulíf í þrot. Stoðir auðhyggjunnar eru fúnar – við þurfum að brjóta þær burtu og til þess þurfum við að fylkja liði.

Þegar við segjumst vilja byggja réttlátt þjóðfélag, þá er það ekki út í loftið. Við höfum sagt að í því sambandi getum við sótt gagnlegar fyrirmyndir til hinna Norðurlandanna. Það hefur verið sýnt fram á það í þessum löndum, að grundvallarsjónarmið verkalýðshreyfingarinnar um velferð og jöfnuð skapa íbúunum mesta almenna velferð og lífsgæði.

Í þessu felst að við leggjum áherslu á öflugt velferðarkerfi, góða menntun fyrir alla, jöfnuð og jafnrétti og traust réttindi launafólks.  Þetta er sérstaklega mikilvægt á þeim tímamótum sem íslenskt samfélag stendur á núna. Það er viðbúið að raddir heyrist um það að við höfum ekki efni á lúxus eins og öflugu velferðarkerfi. Það er rangt – við höfum ekki efni á öðru en að styrkja velferðina enn frekar. Í velferðinni liggur leiðin út úr vandanum.

En víkjum að öðru. Nú er uppi mikil umræða um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Við eigum ekki að óttast þessa umræðu. Hún verður að fara fram – en aðalatriðið er að við förum ekki í hana með fyrirframgefna niðurstöðu. Við megum ekki gefa okkur fyrirfram að við ætlum í Evrópusambandið – né heldur að það komi ekki til greina. Við höfum ekki nægar forsendur til að meta það í dag.

Aðalatriðið er að um málið sé fjallað upplýst og fordómalaust.

Góðir félagar

Fyrsta kröfugangan 1. maí á Íslandi var gengin árið 1923.  Okkur kann að finnast langt síðan – en er það svo? Hvernig var ástandið þá? Ég taldi hér upp áðan nokkra af stórum ávinningum verkalýðshreyfingarinnar á þeim tíma sem síðan er liðinn. Þeir eru auðvitað miklu fleiri.

Það er skynsamlegt fyrir okkur að rifja þetta upp reglulega – og þá er enginn tími betri en 1. maí – þegar við komum saman, minnumst gamalla sigra og horfinna félaga. Það sem skiptir þó mestu máli er að rifja upp ástæðurnar – ástæðurnar fyrir gömlum sigrum. Það er ágætt að spyrja sig félagar góðir - Hvernig unnum við þessa sigra? Við vitum það öll sem hér erum. Sigrarnir unnust með samstöðunni. Með samstöðunni vinnum við ný lönd og nýja sigra og verjum okkar landamæri. Þess vegna komum við saman á fyrsta maí og stillum saman strengina fyrir það sem framundan er.

Félagar,

Ég vil að endingu óska okkur enn og aftur til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkafólks. Hann tengir okkur saman, hvar sem við erum fædd, hvaða tungumál sem við tölum og hvar sem við eigum heima.

Gleðilegt sumar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir