Fulltrúar Skagafjarðar mættu ekki á fund í Húnaveri
Rúmlega 30 manns sóttu opinn fund í Húnaveri á laugardaginn sem Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Leið ehf. boðuðu til þar sem mögulegar vegstyttingar í Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu voru kynntar.
Tilefni fundarins var að kynna íbúum þeirra svæða sem mögulegar vegstyttingar eru til skoðunar, þær hugmyndir sem uppi eru og fá fram viðhorf þeirra og fulltrúa þeirra. Um er að ræða sveitarfélögin Húnavatnshrepp og Blönduósbæ þar sem svonefnd Svínavatnsleið er til skoðunar og Sveitarfélagið Skagafjörð og Akrahrepp þar sem til skoðunar hefur verið stytting um 6 km um svonefnda Vindheimaleið.
Vinna við aðalskipulag í sveitarfélögunum fjórum er langt komin og er ekki gert ráð fyrir þessum vegum þar en á hinn bóginn verður fjögurra ára samgönguáætlun til meðferðar á Alþingi í vetur. Því var það mat fundarboðenda að nauðsynlegt væri að fara yfir stöðu mála á breiðum grunni og helst finna leið til sátta þrátt fyrir ólíkar áherslur. Þær hugmyndir sem kynntar hafa verið af hálfu Leiðar ehf. ganga, eins og fram hefur komið, út á að vegirnir yrðu lagðir utan vegaáætlunar, í einkaframkvæmd og veggjöld innheimt til að standa undir kostnaði. Mætti því áfram gera ráð fyrir talsverðri umferð um þá vegi sem nú eru til staðar.
Stuttar framsögu fluttu Hermann Jón Tómasson, bæjarstjóri á Akureyri; Jónas Guðmundsson, formaður stjórnar Leiðar ehf.; Signý Sigurðardóttir, sviðsstjóri flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu; Auðunn Hálfdánarson, frá Vegagerðinni, Ágúst Þór Bragason, bæjarfulltrúi á Blönduósi og Jens P. Jenssen, sveitarstjóri í Húnavatnshreppi.
Að framsögum loknum spunnust líflegar umræður um vega- byggða- og skipulagsmál og sýndist sitt hverjum. Þó kom fram almenn ánægja með að þessi fundur skyldi haldinn sem í raun varðaði allt Norðurland, en slíkir fundir hefðu ekki verið haldnir fyrr. Ekki voru teknar ákvarðanir um frekari aðgerðir tengdar vega- og samgöngumálum en væntanlega hefur skapast jarðvegur fyrir frekari samskipti á þessu sviði.
Af hálfu Leiðar ehf. var bent á að flest gögn sem þyrfti til að ákveða næstu skref a.m.k. að því er varðar Svínavatnsleið lægju fyrir og var þar einkum bent á skýrslu um hugsanleg samfélagsleg áhrif vegstyttingar í Austur-Húnavatnssýslu, sem nálgst má á vef Leiðar ehf.
Til fundarins var séstaklega boðið fulltrúum þeirra fjögurra sveitarfélaga þar sem styttingar eru til skoðunar svo og þingmönnum Norðvestur- og Norðausturkjördæma. Flestir boðuðu þingmenn forföll og hvorki var mætt af hálfu Akrahrepps né Sveitarfélagsins Skagafjarðar, sem áður hafði þó sent inn skriflegt erindi.
Fundinum stjórnaði af skörungsskap Anna Kristín Gunnarsdóttir, Sauðárkróki.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.