Frjálsar vísindaveiðar á þorski.

Ólína Þorvarðardóttir

Íslenskur sjávarútvegur er í járnum. Hann þarf nýjar lausnir. Atvinnugreinin skuldar 550 milljarða. Gífurleg óánægja er með kvótakerfið sem hefur skilið mörg byggðarlög eftir í flakandi sárum. Viðleitni stjórnvalda til þess að breyta kerfinu hefur mætt hörku og hótunum útvegsmanna. Skapaður hefur verið skortur á leigukvóta svo margir hafa neyðst til að binda báta sína við bryggjur. Með þessu er verið að mynda þrýsting á stjórnvöld gegn boðaðri fyrningarleið. 

 Það er með öðrum orðum skollið á grimmdarstríð í greininni og óvíst um lyktir.
 Við þetta bætist annar vandi, ekki síður alvarlegur. Það er óeiningin um hina árlegu veiðiráðgjöf og fiskveiðistjórnunina.

 Vandinn í fiskveiðistjórnuninni

 Veiðar á Íslandsmiðum eru ekki svipur hjá þeirri sjón sem var á níunda  áratug síðustu aldar þegar árlega voru veidd hér við land 300-500 þúsund tonn.  Í fyrra var heildarþorskaflinn aðeins 147 þúsund tonn, en það er lægsti ársafli í hartnær 70 ár. Samt segja sjómenn og skipstjórar að miðin séu full af fiski, bæði þorski og ýsu og telja það hart að geta ekki veitt hann.  „Þorskurinn kemur og fer" sagði  gamall skipstjóri við  mig á dögunum.  „Við eigum að veiða þennan fisk áður en hann hverfur aftur."

 Spár Hafrannsóknarstofnunar um ástand þorskstofnsins hafa ekki gengið vel eftir. Á heimasíðu Hafró nær tölfræðin aðeins aftur til ársins 1984. Þeir sem til þekkkja muna þó vel að 1980-1983 hrundi stofninn um 700 þús tonn. Hafró kenndi um ofveiði og kvótakerfinu var komið á. Sjómenn bentu á að þessi 700 þúsund tonn hefðu ekki komið fram í löndunartölum - fiskurinn hefði líklegast soltið til dauða, étið úr eigin stofni eða synt til Grænlands. 

 Svipað var uppi á teningnum 1999 þegar þorskstofninn mældist 1031 þúsund tonn og spár gerðu ráð fyrir að hann yrði 1046 þúsund tonn 2001. Það ár mældist hann 577 þúsund tonn. Hafró kunni litlar skýringar á því sem gerst hafði. Reyndir menn telja að þorskurinn hafi þarna verið farinn að drepast úr hungri.

 Hvað gerðist í Barentshafi?

 Fyrir fáum árum var talið að þorskstofninn í Barentshafi væri að hruni kominn vegna ofveiði. Ráðlagður var stórlegur niðurskurður á veiðum, en eftir því var ekki farið. Á fáum árum rétti stofninn þó hratt úr sér og er nú talinn 70% stærri en Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur haldið fram.  Fiskifræðingar við VNIRO hafrannsóknastofnunina í Rússlandi ákváðu að fylgjast með skipum að veiðum með hjálp gervitungla. Skipin veiddu eins og ekkert hefði  í skorist, en vísindamenn fylgdust náið með aflabrögðum, yfirborðshita og ástandi sjávar hverju sinni. Niðurstöður benda til að stofnstærð þorsksins í Bartentshafi sé 2,56 milljónir tonna en ekki 1,50 milljónir tonna eins og áður var talið (af ICES).

 Varð umframveiðin þorskinum til bjargar?

 Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur haldið því fram að umframveiði  í Barentshafinu hafi í reynd orðið þorskstofninum þar til bjargar. Hún hafi forðað fiskinum frá hungurdauða. Líkt og rússnesku fiskifræðingarnir telur hann að hefðbundnar aðferðir við fiskveiðistjórnun taki ekki tillit til náttúrunnar og áhrifa hennar á nýliðun og breytileika í stærð fiskistofna. Getan til að stjórna fiskistofnum sé ofmetin, hið eina sem við getum haft áhrif á séu veiðarnar sjálfar. Því sé skynsamlegast að fylgja takti náttúrunnar og veiða meira í uppsveiflunni, „læra að skilja náttúruna og vinna með henni, ekki reyna að stjórna henni" svon notuð séu hans eigin orð.

 Kristinn Pétursson, fv. alþingismaður og fiskverkandi á Bakkafirði hefur tjáð viðlíka skoðun m.a. í Silfri Egils nýlega. Hann mælir með því að fengin verði verkfræðistofa til að leiða faglega verkefnastjórn um hlutlaust endurmat á stofnstærðum botnlægra fiskistofna. Þessi verkefnisstjórn verði skipuð hæfu fólki, en engum hagsmunaaðilum, hvorki fulltrúm Hafró né LÍÚ.

 Veiðum þorskinn

 Það væri tilraunarinnar virði fyrir okkur Íslendinga að yfirfæra rannsókn rússnesku fiskifræðinganna á íslensk fiskimið. Þarna myndu reynsluvísindin vinna með akademískum vísindum.  Við gætum takmarkað fjölda þeirra skipa sem fengju að veiða: Sent 20 togara, 10 línubáta, auk tiltekins fjölda snurvoðabáta, netabáta og handfærabáta, til frjálsra veiða í 6-9 mánuði og safnað um leið gögnum um veiðarnar. Þarna gætu alþjóðlegir vísindamenn komið að verki með styrk úr alþjóðlegum rannsóknasjóðum.  Niðurstöður gætu varpað nýju ljósi á ástand fiskistofna hér við land auk þess að veita samanburð við Barentshafstilraunina.

 Hér er mikið í húfi því fiskimiðin eru okkar verðmætasta auðlind. Aldrei hefur verið brýnna að ná fram „hagkvæmri nýtingu" fiskistofna og tryggja með því „trausta atvinnu og byggð í landinu" sem er markmið  fiskveiðistjórnunarlaga.

Það er brýnna nú en nokkru sinni að ná sátt um málefni þessarar  undirstöðuatvinnugreinar.

 Til þess að það megi taskast þurfum við að þekkja auðlindina og möguleikana sem í henni felast. Öðruvísi náum við ekki sátt um nýtingu fiskistofnanna, og þar með framtíð íslensks sjávarútvegs.

Ólína Þorvarðardóttir, alþíngismaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir