Fréttir úr Fljótunum

Úr Fljótum fyrr í vetur. Mynd: Arnþrúður Heimisdóttir

Það er margt að gerast í Fljótunum þessa dagana eins og lög gera ráð fyrir á þessum árstíma og sendi Arnþrúður Heimisdóttir fréttir af því helsta en skólakrakkar fengu m.a. kennsku í að kveikja upp eld, léku lúsíur á aðventukvöldi og skreyttu laufabrauð upp á gamla mátann.

 Dagurinn í dag, mánudag 14. des., byrjaði með þeirri dásamlegu aðgerð að kenna nemendum Sólgarðaskóla að kveikja upp bál (til eldunar) með timbri (en engu eldsneyti). Halldór Gunnar Hálfdansson kenndi enda alvanur á kamínu.  Við byrjuðum skólann í dag á því að fara út í skógarstofu með alla nemendur (við tókum leikskólanemendurna með líka) og kveikja upp bál, hita kakó í potti yfir eldinum, og hafa það gott.  Svo voru sungnir ýmsir söngvar úr sönghefti og söngvar sem nemendur hafa lært.  Yndislegt, það var kolsvarta myrkur, stjörnubjart, alger kyrrð og snarkandi endurskin loga á brosandi barnsandlitum.  Kveikjum eld kveikjum eld kátt hann brennur....

 Aðventukvöld í Barðskirkju

Síðastliðinn sunnudag var Aðventukvöld ársins í Barðskirkju.  Nemendur skólans fluttu þar Lúsíuleik sem var mjög viðeigandi því þetta var einmitt á Lúsíumessu, 13. desember.  Áheyrendur voru einnig fræddir um sögu Lúsíu, en Lúsía var píslarvottur, fædd árið 283.  Á Norðurlöndum stendur þessi hátíð traustum fótum, sérstaklega í Svíþjóð og Danmörku. Lúsían og englarnir sem fylgdu henni báru ljós inn í kirkjuna, sungu söngva og fluttu fallega jólasögu.  Reyndar bættist svo við að sum börnin í sveitinni hafa boðið sig fram í kirkjukórinn og sungu með honum, og nokkur börn fluttu þar að auki bænir.  Stundin var því mjög hátíðleg.  Eftir athöfnina í Barðskirkju var kirkjukaffi í skólanum.  Þetta kvöld var 9° hiti úti og vel var hægt að syngja "Kvöldið er fagurt, sól er sest og sefur fugl á grein" enda fóru leikar fljótlega svo að fullorðna fólkið sat inni og saup á kaffi en öll börnin, 1 árs og eldri, léku sér úti á spariskyrtunum í skini útiljósanna. Það voru því stoltir - og sælir - krakkar með rjóðar kinnar sem fóru heim það kvöldið.

Jólaról á Sólgörðum.

Þessa dagana er öllu sem hægt er snúið upp á jól og aðventu á Sólgörðum.  Í heimilisfræði hafa t.d. verið skreytt laufabrauð að fornum sið (engin laufabrauðsjárn leyfileg), og piparkökur skreyttar, en jólalög spiluð í bakgrunninum.  Í myndmennt hefur verið unnið með þæfingu og búnir þannig til jólaenglar, hin dýrðlegustu tré-jólatré útbúin, og svo handgera allir jólakort og senda skólafélögum og starfsfólki.  Í íslensku og lífsleikni og söng hefur aðventuleikur verið æfður, sem var fluttur á Aðventukvöldinu í Barðskirkju síðastliðið sunnudagskvöld.  Í bókmenntum og íslensku læra nemendur jólakvæði sem eru bráðnauðsynlegur hluti af íslenskri menningu, og hlusta á gamlar þjóðsögur af ýmsu tagi sem gerast á jólum (með huldufólki og ýmsum furðuverum).  Þannig má halda endalaust áfram, enda er gaman að halda upp á þessa hátíð ljóss og friðar alla aðventuna, og njóta tíma myrkursins á Íslandi, og andstæðu myrkursins sem birtist í ljósum og litum þessarrar vetrarhátíðar.

palli@feykir.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir