Frestun á afhendingu Suðurgarðs
Víðimelsbræður ehf. hafa farið þess á leit við Sveitarfélagið Skagafjörð og Siglingamálastofnun að fá að lengja skilafrest á Suðurgarðinum sem er grjótgarður í Sauðárkrókshöfn en þeir hafa verið að vinna í honum undanfarnar vikur. Verkinu átti að ljúka í febrúar 2009 en með þessari ráðstöfun dregst það fram í apríl.
-Ástæðan er ekki sú að við treystum okkur ekki til að skila verkinu á umsömdum tíma, heldur það að í íslensku þjóðfélagi hafa orðið þvílík umskipti að við blasir mikið atvinnuleysi í flestum atvinnugreinum, segir Jón Árnason einn Víðimelsbræðra.
–Eftir að hafa ígrundað ýmsa möguleika gagnvart þeim mannskap sem við höfum í vinnu fannst okkur vera betri kostur gagnvart okkar starfsmönnum að draga úr eftirvinnu og geta frekar haldið mannskapnum til vors með von um að úr rætist með önnur verkefni með hækkandi sól. Ég hef þegar rætt þessi mál við fulltrúa Sveitarfélagsins og Siglingamálastofnunar og tóku þeir vel í þessa ósk okkar.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.