Framúrskarandi ungur Íslendingur 2022
Sólborg Guðbrandsdóttir hlaut verðlaunin Framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2022. Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti verðlaunin í KR heimilinu ásamt Ríkeyju Jónu Eiríksdóttur, landsforseta JCI miðvikudaginn 30. nóvember. Tíu Íslendingar hlutu viðurkenningu í ár og þar á meðal var Króksarinn Ingvi Hrannar Ómarsson en hann var tilnefndur sem leiðtogi og fyrir afrek á sviði menntamála.
Reyndar hefur Feykir heimildir fyrir því að annar aðili á listanum hafi tengingu á Krókinn, Stefán Ólafur Stefánsson, sem var tilnefndur fyrir störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði. Hann mun vera sonur Stebba póst sem var sonur Óla póst, póstmeistara á Króknum til margra ára. Stebbi póst var ólseigur með einu af gullaldarliðum Tindastóls í fótboltanum á áttunda áratugnum.
Verðlaunin Framúrskarandi ungir Íslendingar sem veitt eru árlega af JCI Íslandi, eru fyrst og fremst hvatningarverðlaun til ungs fólks sem er að takast á við krefjandi og athyglisverð verkefni. Þetta er hvatning og viðurkenning fyrir ungt fólk sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni.
Eftirfarandi Íslendingar hlutu viðurkenningu í ár:
- Anna Sæunn Ólafsdóttir
Störf/ afrek á sviði menningar - Björn Grétar Baldursson
Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda - Daníel E. Arnarsson
Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda - Embla Gabríela Börgesdóttir Wigum
Störf/ afrek á sviði menningar - Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir
Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda - Ingvi Hrannar Ómarsson
Leiðtogar/ afrek á sviði menntamála - Sólborg Guðbrandsdóttir
Leiðtogar/ afrek á sviði menntamála - Stefán Ólafur Stefánsson
Störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði - Viktor Ómarsson
Störf á sviði mannúðar- eða sjálfboðaliðamála - Vivien Nagy
Störf á sviði tækni og vísinda
Dómnefnd skipaði Þórunn Eva Pálsdóttir Framúrskarandi ungur Íslendingur 2021, Eyvindur Elí Albertsson verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg og senator JCI, Geir Finnson forseti LUF, Ragnhildur Helgadóttir rektor Háskólans í Reykjavík og Ríkey Jóna Eiríksdóttir landsforseti JCI 2022.
Heimild: Framúrskarandi.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.