Frábær skemmtun í Síkinu en tap gegn KR þó staðreynd
KR-ingar komu í heimsókn í Síkið í kvöld og höfðu sigur í spennandi og skemmtilegum leik. Gestirnir náðu góðri forystu strax í upphafi og virtust ætla að rústa liði heimamanna. Tindastóll með Helga Viggós og Svavar Birgis í fararbroddi mættu hinsvegar ákveðnir til leiks í öðrum leikhluta og komust Stólarnir með harðfylgi inn í leikinn. Lokatölur urðu 107-114 fyrir KR.
Hún var frekar dauf stemningin í Síkinu fyrstu mínútur leiksins enda virtist lítill kraftur og lítið sjálfstraust vera í heimamönnum sem misstu KR-inga alltof langt framúr sér í fyrsta leikhluta. Staðan 19-35. En í öðrum leikhluta kom allt annað lið til leiks hjá Stólunum og strákarnir hófu þegar að saxa á forskot gestanna. Staðan í hálfleik var 46-54.
Áfram héldu Tindastólsmenn í síðari hálfleik og spiluðu svæðisvörn sem virtist setja KR-inga út af laginu um tíma. Stólarnir komust yfir 67-66 en KR með Semaj í miklum ham létu ekki deigan síga og náðu 5-6 stiga forystu. Stólarnir áttu þó síðasta orðið í þriðja leikhluta og staðan 78-79.
Baráttan hélt áfram í fjórða leikhluta og stemningin í Síkinu svolítið sérstök. Stólarnir voru vel studdir en fólk horfði engu að síður á leikinn nánast með andakt. Svavar og Michael voru magnaðir í liði Tindastóls en refurinn Helgi Rafn var engum líkur í kvöld og spilaði örugglega sinn langbesta leik fyrir Stólana. Þegar upp var staðið reyndust gestirnir hafa meiri breidd en það sem gerði gæfumuninn í kvöld var að Tommy Johnson steig upp fyrir KR-inga á lokakaflanum þegar leikurinn var í járnum. Kappinn setti niður nokkra þrista og var nokkuð öruggur í vítaskotunum. Lokatölur 107-114.
Helgi Rafn var í alveg ógurlegu stuði í kvöld, gerði 33 stig í flestum regnbogans litum og svo barðist hann eins og ljón í vörninni í viðureign við landsliðskempuna Fannar Ólafsson. Svavari er greinilega ekkert of vel við að Helgi sé að yfirtrompa sig í stigaskorinu en varð að lúta í dúk en gerði þó 28 stig. Annars áttu Stólarnir að mestu góðan leik utan fyrsta leikhluta þar sem menn virtust hreinlega ekki tilbúnir í slaginn. En leikurinn gefur góð fyrirheit og ætti að sýna leikmönnum að það er ýmislegt hægt þó ekki sé kani við höndina. Og þvílík skemmtun - nú viljum við sigur næst!
Stigaskor Tindastóls: Helgi Rafn 33, Svavar 28, Michael 14, Helgi Freyr 13, Axel 12, Friðrik 5 og Hreinn 2.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.