Fótboltinn aftur af stað

Guðni þjálfari. MYND: ÓAB
Guðni þjálfari. MYND: ÓAB

Knattspyrnukempur eru komnar í startholurnar eftir að leyfi fékkst til að halda áfram keppni á Íslandsmótunum sem sett voru á ís í lok júlí. Leikið verður á Sauðárkróksvelli á sunnudaginn kl. 16:00 þegar Afturelding kemur í heimsókn í Lengjudeild kvenna. Á sama tíma spila strákarnir á Egilsstöðum við lið Hugins/Hattar. Rétt er að benda á að enn um sinn mega áhorfendur ekki mæta á vellina en TindastóllTV sýnir væntanlega heimaleiki Tindastóls þannig að baráttan í boltanum á ekki að þurfa að fara framhjá stuðningsmönnum.

Feykir heyrði í Guðna Þór Einarssyni í þjálfaradúett kvennaliðs Tindastóls en hann segir að liðið sé að nálgast fulla heilsu á ný og stoppið hafi komið að góðum notum í að ná öllum leikmönnum frískum. 

Þrjár stúlkur kvöddu samherja sína í lok júlí og skelltu sér í háskólanám í Bandaríkjunum. „Við teljum okkur þurfa að styrkja liðið með 2-3 leikmönnum til að vera tilbúnar í komandi leiki og mæta auknu álagi eftir COVID-pásuna,“ segir Guðni. „Við erum að vinna í liðsstyrk en það er óvist hvort það náist fyrir þennan leik en ef það næst ekki þá treysti ég leikmönnum mínum 100% í að klára leikinn á sunnudaginn.“

Engir áhorfendur leyfðir í bili

Regluverk KSÍ um sóttvarnir er mikið plagg en það má finna á heimasíðu sambandsins. Sem fyrr segir er áhorfendum óheimilt að mæta á völlinn og því aðeins keppendur og starfsmenn sem mega láta ljós sín skína. „Það verður mjög mikilvægt fyrir okkur að fylgja þessum reglum í einu og öllu,“ segir Guðni. „Ef upp kemur smit þá tel ég yfirgnæfandi líkur á að mótinu verði slaufað og það endurtekið að ári. Við verðum að klára 2/3 af leikjunum til að mótið gildi.“ Það eru sannarlega spennandi tímar hjá Tindastóli en kvennaliðið er sem kunnugt er í toppbaráttu Lengjudeildarinnar og því möguleiki að Tindastóll tryggi sér í fyrsta sinn í sögu félagsins sæti í efstu deild í fótboltanum.

„Ég reikna með að snillingarnir í Tindastóll TV sýni leikinn og hvet flesta til að horfa á leikinn og senda góða strauma til stelpnanna,“ segir Guðni að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir