Flottar myndir af Undirfells- og og Auðkúlurétt í Austur-Húnavatnssýslu
Réttað var víða á landinu um helgina í heldur misgóðu veðri. Fyrri part sunnudags var veðrið til friðs en eftir hádegi fór að rigna víðast hvar á Norðurlandi. Laugardagurinn skartaði hins vegar sínu fegursta og fengu þau sem gengu þann daginn, og drógu sitt fé, kjörið veður til þeirra verka. Fjölmargar myndir má finna á samfélagsmiðlum frá smölun og drætti en meðfylgjandi myndir tók Róbert Daníel Jónsson með hjálp flygildis frá Undirfellsrétt og Auðkúlurétt.
Á heimasíðu Húnavatnshrepps segir að afréttarlöndin sem smöluð eru fyrir Undirfellsrétt séu Grímstungu- og Haukagilsheiði ásamt hluta úr Víðidalsfjalli. Undirfellsrétt er í vestanverðum Vatnsdal við bæinn Undirfell og hefur lengi verið ein af stærstu réttum landsins, og er enn, þótt fjárfjöldinn sé mun minni en hann var þegar flest var. Gera má þó ráð fyrir að til réttar komi 10- 15.000 fjár á hverju hausti.
Afréttarlandið sem smalað er fyrir Auðkúlurétt er Auðkúluheiði. Auðkúlurétt stendur á Stóradalsnesi við enda Svínavatns. Þar í grennd er samkomuhúsið Dalsmynni.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.