Fjórir aðilar hlutu samfélagsviðurkenningu frá íbúum Húnaþings vestra

Samfélagsviðurkenningarhafar ásamt Gerði Rósu formanni félagsmálaráðs. MYND AF VEF HÚNAÞINGS VESTRA
Samfélagsviðurkenningarhafar ásamt Gerði Rósu formanni félagsmálaráðs. MYND AF VEF HÚNAÞINGS VESTRA

Snemma árs hvatti félagsmálaráð Húnaþings vestra íbúa til að tilnefna þá aðila sem þeim þótti eiga skilið virðingarvott frá íbúum sveitarfélagsins. Nú á dögunum voru samfélagsviðurkenningarnar veittar og komu í hlut fjögurra aðila; Ingibjargar Jónsdóttur, Handbendi, Ingibjargar Pálsdóttur og Kristínar Árnadóttur.

Viðurkenningarnar eru veittar annað hvert ár og er þetta í fimmta sinn sem þær eru veittar. Hér að neðan má lesa sér til um þá aðila sem hlutu viðurkenningu en textinn er af vef Húnaþings vestra.

- - - - -

Ingibjörg Jónsdóttir
Ingibjörg stofnaði Rokkkórinn sem byrjaði af krafti en þurfti svo að víkja fyrir covid aðeins nokkrum mánuðum seinna. Hún lét ekki deigan síga og kom á æfingum aftur og skipulagði tvenna tónleika. Rokkkórinn gefur fólki sem hefur gaman að söng einstakt tækifæri til að fá að njóta sín þar sem hún gefur öllum tækifæri, og jafnvel ýtir við fólki til þess að stíga fram og fara aðeins út fyrir þægindarammann. Rokkkórinn er svo sannarlega góð viðbót við það kórstarf sem nú þegar er í sveitarfélaginu sem og frábær starfsemi sem sameinar marga ólíka einstaklinga. Ingibjörg hefur einnig verið í stjórn leikflokksins þar sem hún starfar af miklum krafti. Í síðustu uppsetningu leikflokksins gegndi Ingibjörg stóru hlutverki þar sem hún var ekki bara hljómsveitarstjórinn heldur á hún hrós skilið fyrir að halda fagmannlega utan um allt verkefnið. Það sem einkennir Ingibjörgu er drifkrafturinn og sú mikla ástríða sem hún hefur fyrir verkefnunum sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún passar ávallt upp á að öllum líði vel í því sem verið að gera og að verkefnin séu unnin af fagmennsku.

Handbendi
Hlýtur þessa viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf í listum og menningu. Sem dæmi má nefna að standa fyrir HIP fest hátíðinni sem lífgar heldur betur uppá bæinn okkar og Listamenn héðan og þaðan úr heiminum koma til að taka þátt. Einnig hefur Handbendi staðið fyrir leiklistarnámskeiði fyrir börn og ungmenni sem hafa áhuga á leiklist sem og t.d. námskeiði í brúðugerð sem er frábært framtak og mikil lukka fyrir unga sem aldna að hafa svona hæfileikaríkt fólk sem leiðbeinendur í þessu fagi. Handbendi hefur komið sér upp sérlega fínni aðstöðu í Búlandi þar sem Gréta eigandi Handbendi hefur vinnuaðstöðu en einnig bíður aðstaðan upp á aðra möguleika og hafa þau í vetur boðið upp á bíó fyrir börn sem og fullorðna og einnig prjónakvöld sem vakti mikla lukku. Fallegt og gjöfult starf sem unnið er af handbendi og eru þau vel að þessari viðurkenningu komin.

Ingibjörg Pálsdóttir
Flestum sem í sveitarfélaginu búa er kunnugt um hennar mikla framlag til í þágu samfélagsins sem nær meira en 60 ár aftur í tímann. Hún var einn stofnenda fegrunarfélagsins sem gróðursetti við sjúkrahúsið og efndi til hátíðarhalda á sumardaginn fyrsta til að safna fyrir plöntum. Þau hátíðarhöld festu sig aldeilis í sessi og var Lilla Páls í forsvari fyrir hátíðinni ásamt fjölskyldu sinni og félagasamtökum í 60 ár. Ræktun Lillu og Sigurðar Eiríkssonar heitins eiginmanns hennar er okkur jafnframt kunn. Bletturinn er fyrir löngu orðinn gróðurvin og gamlar loftmyndir sýna svo að ekki er um villst hvaða þrekvirki þau hafa unnið þar. Það er tæpast á nokkurn hallað þegar sagt er að þau hjónin eigi stóran hlut í þeim mikla gróðri sem nú einkennir Hvammstanga. Hún og Siggi maður hennar sáu jafnframt um félagsheimilið á Hvammstanga um langt skeið. Þessu til viðbótar starfaði Lilla við tónlistarkennslu við tónlistarskólann í áratugi. Einnig stjórnaði hún kórum lengi og lék undir við ýmis tækifæri önnur.

Kristín Árnadóttir
Hún hefur, allt frá komu sinni í Húnaþing vestra fyrir rúmlega þremur áratugum, sinnt fjölmörgum störfum í þágu sveitarfélagsins. Hér má nefna skólastjóratíð hennar í Vesturhópsskóla og Barnaskólanum á Borðeyri auk kennslu á báðum stöðum. Átt sæti í kjörstjórn (Vesturhópi sem og Bæjarhreppi) um allnokkurt skeið og einnig formaður hennar um tíma. Málefni kirkna og kvenfélaga hafa verið henni afar hugleikin, meðhjálpari hefur hún verið í Prestbakkakirkju um lagt árabil og staðið myndarlega að kirkjukaffi í safnaðarheimilinu eftir athafnir og virkjað aðra með sér í það verk. Hún er iðin í hinum ýmsu stjórnum og boðin og búin að taka til hendinni og leggja til hjálparhönd ef þess þarf. Hún er m.a. í stjórn Félags áhugamanna um endurbyggingu Riishúss á Borðeyri og hefur oft komið fram fyrir hönd þess félagsskapar s.s. í sjónvarps- og útvarpsviðtölum og einnig tekið að sér leiðsögn um húsið fyrir hópa. Í gestabók hússins má margoft finna skrif, innlendra sem erlendra gesta, um vingjarnlegt viðmót hennar. Hún er heimsóknarvinur á svæðinu og einnig fer hún enn, þó formlegu djáknastarfi sé lokið, í reglulegar heimsóknir á sjúkrahúsið á Hvammstanga og efnir til samverustunda með íbúum þar. Hún er nærgætin við fólk og sér í lagi þá sem verða fyrir áföllum svo sem ástvinamissi. Það fólk hefur hún iðulega heimsótt og hughreyst. Í öllu umróti samfélagsmiðla og orðræðu hafa margir sagt að það sé eftirtektarverkt hvað Kristín skrifar ætíð fallega og á uppbyggjandi hátt til fólks á „facebook“ og það eru orð að sönnu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir