Fjórir fulltrúar frá Tindastóli sóttu ungmennaþing KSÍ
Fyrsta ungmennaþing Knattspyrnusambands Íslands fór fram síðastliðinn sunnudag en þá komu saman um 60 ungmenni frá um 20 félögum. Þátttakendur voru á aldrinum 12-18 ára og fékk hvert félag að senda fjögur ungmenni á þingið. Markmið þingsins var að gefa ungmennum landsins sem spila fótbolta rödd með stofnun ungmennaráðs.
Í frétt á heimasíðu KSÍ segir að aðal umræðuefni þingsins hafi verið tvö. Hegðun foreldra á fótboltamótum og mótamál. Miklar og góðar umræður sköpuðust í hópavinnu þar sem meðal annars var nefnt að gott væri ef foreldrar héldu sig nokkra metra frá vellinum á meðan á leik stæði. Þátttakendur höfðu mikla skoðun á dómgæslu og kölluðu þau til dæmis eftir því að dómarar væru að minnsta kosti nokkrum árum eldri en þau sem væru að spila leikinn.
Fjöldi umsókna barst í ungmennaráð KSÍ sem verður stofnað á næstu dögum. Hlutverk ungmennaráðsins verður að gæta hagsmuna iðkenda í yngri flokkum í íslenskum fótbolta og vera rödd þeirra innan knattspyrnuhreyfingarinnar.
Fjórir fulltrúar fóru fyrir hönd Tindastóls á þingið en það voru Emelía Björk Hjartardóttir (2007), Sunneva Dís Halldórsdóttir (2007), Viktor Smári Davíðsson (2008) og Hilmar Örn Helgason (2008).
Myndir af ungmennaþinginu má sjá á Facebook síðu KSÍ.
Heimild: KSÍ.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.