Fjölniskonur reyndust sterkari í Síkinu
Körfuboltinn er kominn á ról á ný og í gær mættust lið Tindastóls og Fjölnis úr Grafarvogi í hörkuleik í Síkinu. Lið gestanna var í toppsæti deildarinnar fyrir leik og hafa sennilega á að skipta besta liðinu í 1. deild. Heimastúlkur voru þó yfir í hálfleik, 48-39, en lið Fjölnis tók leikinn yfir í þriðja leikhluta og lagði þar grunninn að góðum sigri. Lið Tindastóls hefði þó með agaðri leik í lokafjórðungnum getað tekið stigin tvö en gestirnir voru sterkari á lokamínútunum og sigruðu 71-80.
Töluvert var um lokanir á vegum í gær en lið Fjölnis og dómaraparið gerðu vel í því að skila sér í Síkið. Það voru gestirnir sem fóru betur af stað í leiknum og komust í 3-10 en körfur frá Tess, Marínu og Evu jöfnuðu leikinn 14-14. Stólastúlkur réðu hins vegar illa við Huldu Ósk í liði Fjölnis en hún gerði 14 stig í fyrsta leikhluta, átti raunar stjörnuleik, og sá til þess öðrum fremur að lið Fjölnis var einu stigi yfir að loknum leikhlutanum en þá stóð 26-27. Tess gerði fyrstu sex stig annars leikhluta og lið Tindastóls lék vel á meðan hvorki gekk né rak hjá liði Fjölnis. Telma Ösp kom Stólunum í 38-31 þegar leikhlutinn var hálfnaður. Lið Fjönis hélt sér inni í leiknum með góðri nýtingu í 3ja stiga skotum en það var Kristín Halla sem átti síðasta orðið fyrir hálfleik, setti niður þrist, spjaldið og niður og lið Tindastóls með níu stiga forystu í hálfleik, 48-39.
Það var lið Fjölnis sem byrjaði síðari hálfleik betur en þó voru bæði lið í raun að skjóta illa. Tess setti niður tvö víti eftir tveggja mínútna leik og staðan 50-43 en þá kom kafli þar sem lið Tindastóls skoraði ekki í hátt í fimm mínútur og á meðan komst lið Fjölnis yfir. Valdís Ósk setti niður þrist og staðan 53-54 og meira skoruðu Stólastúlkur ekki í leikhlutanum en lið Fjölnis var yfir 53-61 fyrir lokaátökin. Lið Tindastóls fékk í raun fullt af ágætum færum í þriðja leikhluta en nýtti þau afar illa og tapaði mörgum boltum klaufalega. Það var slæmt að Marín fékk þriðju og fjórðu villurnar sínar snemma í þriðja leikhluta og lið Tindastóls mátti illa við að þurfa að kæla hana niður þar sem liðið var án beggja Akureyrarstúlknanna að þessu sinni og breiddin því minni en vanalega í liðinu. Stelpurnar komu þó eins og vanalega harðákveðnar til leiks í fjórða leikhluta og voru snöggar að koma sér inn í leikinn á ný. Þegar fimm mínútur voru til leiksloka minnkaði Eva Rún muninn í 66-68 en lið Fanney setti niður eitt víti fyrir gestina og staðan þá 66-69. Í þeirri stöðu fékk lið Tindastóls færi til að snúa leiknum sér í vil en niður vildi boltinn ekki og það voru gestirnir sem náðu næsta áhlaupi, gerðu sex stig í röð og tryggðu sér að lokum öruggan sigur.
Það var skarð fyrir skildi í liði Tindastóls að í liðið vantaði Akureyringana Kareni og Hrefnu. Tess var atkvæðamest í liði Tindastóls með 30 stig, sex fráköst og fjórar stoðsendingar. Marín Lind var með 15 stig og sex fráköst, Telma Ösp var drjúg með tíu stig og tólf fráköst, Eva Rún með sjö stig og átta fráköst, Kristín Halla sex stig og Valdís Ósk þrjú stig. Í liði Fjölnis var Hulda Ósk á eldi, gerði 31 stig (71% skotnýting) og tók 18 fráköst. Þá áttu Fanndís María og Eygló Kristín fínan leik fyrir Fjölni. Liðin tóku álíka mörg fráköst en gestirnir áttu 18 stoðsendingar gegn sjö hjá Stólunum sem segir manni að gestirnir hafi spilað boltanum betur. Þá tók lið Fjölnis 20 vítaskotum meira en lið Tindastóls en nýttu vítin þó illa (17/31).
Lið Tindastóls er nú í þriðja sæti 1. deildar. Næsti leikur er gegn liðinu í öðru sæti, Keflavík b, og fer hann fram laugardaginn 11. janúar kl. 16:00 í Blue-höllinni í Keflavík.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.