Fjölgun starfa og gesta Byggðasafnsins
Byggðasafn Skagfirðinga hefur skapað 7,3 ársstörf á þessu ári, sem er aukning frá fyrra ári. Hið sama má segja um aðsókn að sýningum safnsins, sem jókst um 41% í Minjahúsinu og 8% í Glaumbæ.
Þann 1. október s.l. höfðu 2685 gestir komið í Minjahúsið á Sauðárkróki og 29205 heimsóttu gamla bæinn í Glaumbæ og skapa þeir orðið 3 ársstörf hjá safninu.
Átta safnverðir voru við gæslu og móttöku gesta yfir sumartímann, nemendur af öllum skólastigum. Fjórða starfið við safnið er starf safnstjóra, en störf hans eru meira og minna farin að mótast af gestum safnsins, a.m.k. á hlýrri helming ársins. Umsýsla safnstjóra vegna fjölgunar ferðamanna hefur vaxið svo á milli ára að ferðamálahluti starfsins fer að kalla á enn einn starfsmanninn, því hvernig sem ferðamenn vilja haga sér þarf að sinna öðrum hefðbundnum safnstörfum.
Við safnið eru 3,3 ársstörf sérfæðinga sem skipta verulegu máli. Það eru störf fornleifafræðinga og landfræðings á Fornleifadeild safnsins. Síðast liðin 2 ár hefur sveitarfélagið lagt til sem svarar einni stöðu við deildina. Aðrar stöður og hlutastörf hafa verið fjármögnuð með sértekjum og styrkjum. Helstu verkefni deildarinnar eru fornleifaskráningar, fornleifarannsóknir, korta- og sýningargerð auk mannabeinarannsókna.
Starfsmenn deildarinnar hafa komið að og/eða verið í forsvari fyrir flestum fornleifarannsóknum sem farið hafa fram í Skagafirði á undanförnum árum, svo sem; Hólarannsókninni, Kolkuósrannsókn, rannsóknum í Keldudal, byggðasögurannsóknum í samvinnu við byggðasöguritara, jarðsjárrannsóknum bandaríska SASS hópsins og síðast en ekki síst rannsóknum á fornum kirkjugörðum í Skagafirði.
Tugir nema og sérfræðinga hafa tengst rannsóknum deildarinnar og hún er í samstarfi og samskiptum við ýmsa háskóla og rannsóknarstofnanir bæði innanlands og utan.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.