Fjölgun flugferða til Sauðárkróks
Frá og með deginum í dag fjölgar Flugfélagið Ernir flugferðum til Sauðárkróks um tvær ferðir. Byrjað verður að fljúga á mánudögum sem ekki hefur verið gert áður og síðan er flogið aukaflug á föstudögum.
Ástæða þessara breytinga er mikil aukning farþega til og frá Sauðárkróki yfir vetrarmánuðina. Með þessu vill Flugfélagið Ernir koma til móts við þá eftirspurn sem myndast hefur á svæðinu. Einnig hefur Flugfélagið Ernir ákveðið að bjóða upp á fríar rútuferðir milli Siglufjarðar og Sauðárkróks í tengslum við áætlunarflugið. Með því móti verður Siglfirðingum gert kleift að fljúga á sama verði og aðrir á Sauðárkróki án þess að þurfa að leggja út í kostnað við ferðir á flugvöll sem tekur um 1 klst.
Flugfélagið Ernir tók við áætlunarflugi á Sauðárkrók í ársbyrjun 2007 og hefur farþegastreymi þangað farið vaxandi frá þeim tíma. Einnig sinnir félagið áætlunarflugi á Höfn í Hornafirði, Bíldudal og Gjögur og hefur aukning farþega einnig verið á þessa staði.
Ásamt því að sinna áætlunarflugi á fjóra áfangastaði sinnir Flugfélagið Ernir einnig leiguflugi hér innanlands og millilanda sem og útsýnisferðum hvert á land sem er með innlenda sem erlenda ferðamenn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.