Fjöldi manns á MATUR-INN
Sýningin MATUR-INN fór fram í fjórða sinn um helgina. Sýningin var haldin í Íþróttahöllinni á Akureyri og var fjölsótt. Aðgangur var ókeypis og mikilll straumur gesta báða sýningardagana.
Áætlað er að um 12-14 þúsund gestir hafi komið á sýninguna en hún var haldin af félaginu Mat úr Eyjafirði í góðu samstarfi við Matarkistuna Skagafjörð og Þingeyska matarbúrið. Þátttakendur í sýningunni voru á fimmta tug og þar var bæði hægt að bragða á norðlenskum matvælum en ekki síður nýttu sýningargestir sé hagstæð sýningartilboð hjá sýnendum.
Svanhildur Pálsdóttir hjá Skagfirsku matarkistunni segir að gengið hafi vel hjá skagfirsku fyrirtækjunum og hefur heilmikið gildi fyrir þau. –Samvinnan að verkefninu og kynningunni var mjög góð og „conceptið“ Matarkistan Skagafjörður er mjög dýrmætt, segir Svanhildur.
„Við vitum dæmi þess að fyrirtæki hafi selt tífalt meira magn en á síðustu sýningu fyrir tveimur árum og almennt voru sýnendur mjög ánægðir með viðtökur gesta,“ segir Ingvar Már Gíslason í sýningarstjórn. „Markmiðið með sýningunni var að vekja athygli á því hve matvælaframleiðsla er öflug á Norðurlandi og ekki aðeins framleiðsla heldur ekki síður veitingastarfsemi og margir aðrir þættir sem snerta matvælageirann á Norðurlandi. Við færðum sýninguna í mun stærra húsnæði en hún var áður í þannig að mun rýmra var um gesti og sýnendur. Í heild tel ég að þau markmið sem við lögðum upp með hafi gengið eftir,“ segir Ingvar Már.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.