Fjölbreytt verkefni húsasmíðanema
Verkefni nemenda FNV í húsasmíði á 3.og 4. önn eru þetta árið mjög fjölbreytt. Um er að ræða tvö borholuhús 12,4 m2 fyrir Skagafjarðarveitur, sem eiga að fara upp í Hjaltadal, en þau eru áttstrend. Þá verður byggt 14 m2 fuglaskoðunarhús fyrir Náttúrustofu Norðurlands og smíði er hafin á 58 m2 sumarhúsi í samstarfi við K-TAK hf.
Það eru 27 nemendur sem sjá um að byggja þessi hús, en þeir hafa aldrei verið fleiri. Frá síðustu áramótum hefur verið boðið upp á nám með vinnu fyrir nemendur sem hafa náð 20 ára aldri og hafa reynslu af byggingavinnu. Í þessum hópi eru 16 nemendur sem sjá um byggingu sumarhússins. Þeir koma fimm helgar og vinna frá kl 15:00 á föstudegi til kl.16:00 á sunnudegi, en dagskólanemendur, sem eru 10 talsins, sjá um byggingu borholuhúsanna og fuglaskoðunarhússins.
Hafist var handa þann 24/8 að undirbúa byggingastað, en byggingasvæðið er að þessu sinni mjög takmarkað vegna vinnu við stækkun Verknámshússins, en í framtíðinni er gert ráð fyrir svæði til vinnu við verkefni utan húss.
Verkefnum miðar vel áfram og eru nemendur mjög áhugasamir um að láta verkin ganga vel. Markmiðið er að ná sumarhúsinu fokheldu fyrir áramót. Unnið verður innandyra eftir áramót við að innrétta það. Stefnt er að því að klæða borholuhúsin og fuglaskoðunarhúsið að utan fyrir áramót og smíða hurðir og glugga í þau eftir áramót.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.