Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra slitið í dag
Alls brautskráðust 75 nemendur frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra af tólf námsbrautum í dag í hátíðlegri athöfn í íþróttahúsinu á Sauðárkróki. Rúmlega 550 nemendur stunduðu nám við skólann og um 60 manns störfuðu þar í vetur. Fjöldi gesta var viðstaddur athöfnina sem stóð yfir í rúma tvær klukkustundir.
Eftir setningarathöfn Ingileifar Oddsdóttur skólameistara fór Kristján Bjarni Halldórsson, áfangastjóri, yfir helstu atburði skólaársins sem var bæði fjölbreytt og yfirgripsmikið og ber vitni um kraftmikið starf nemenda og kennara skólans.
Ávörp fluttu þær Elín Sveinsdóttir og Iðunn Helgadóttir fyrir hönd brautskráningarnema, Anna Rós Ívarsdóttir f.h. 20 ára brautskráningarnema og Bjarni Már Bjarnason f.h. 30 ára brautskráningarnema.
Þá voru tveir kennarar kvaddir með blómum og þökkum fyrir langt og farsælt starf við skólann, þeir Eric Fissers og Björn Magnússon.
Nemendur skólans fluttu tónlistaratriði, Ragnheiður Petra Óladóttir sem söng tvö lög við undirleik Thomas Higgerson, félagarnir Einar Örn Gunnarsson og Sæþór Már Hinriksson fluttu Pianoman og systkinin Iðunn og Jón Páll Helgabörn slógu svo botninn í athöfninni áður en nemendur voru kvaddir og Ingileif sleit skólanum formlega.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.