Fiskisúpa og gulrótarkaka sem svíkur engan

Matgæðingarnir Margrét Björk og Ragnar Þór. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Margrét Björk og Ragnar Þór. Mynd úr einkasafni.

Ragnar Einarsson og Margrét Arnardóttir á Sauðárkróki eru matgæðingar Feykis að þessu sinni.„Þegar kemur að matargerð á okkar heimili er það Ragnar sem á heiðurinn af öllu sem heitir eldamennska enda mikill áhugamaður um matargerð. Ég sé hins vegar um salöt og bakstur og hef reynt að taka út hveiti og sykur og nota önnur hráefni í staðinn. Þetta er ágætis verkaskipting,“ segir Margrét en þau hjón voru matgæðingar Feykis í 47. tölublaði ársins 2015. Þau ætla að bjóða uppá fiskisúpu að hætti Ragga og gulrótarköku í hollari kantinum.

Aðalréttur
Fiskisúpa

Þessi uppskrift hentar vel fyrir 6-8 manns. 

2 lítrar vatn
½ flaska þurrt hvítvín (má vera mysa)
2 msk matarolía
2 lárviðarlauf
2 laukar - gróft saxaðir
2 stórir hvítlauksgeirar
½ dós niðursoðnir sveppir
½ dós niðursoðnir saxaðir tómatar
1 msk Maldon salt
1 tsk karrý
svartur pipar eftir smekk
1 msk paprika
¼ tsk cayenne pipar
1 tsk timian
2 þræðir saffran 

Aðferð: Öllu blandað saman og soðið í 30 mínútur. Þá er fiskinum og rjómanum bætt útí. Það má nota hvaða hvíta fisk sem er (t.d. ýsu eða lúðu) og auðvitað er frábært að nota humar ef hann er til. 

2 þorskflök
200 g krabbakjöt
½ l rjómi

Þegar þetta er allt komið saman er súpan látin malla áfram þangað til fiskurinn er tilbúinn. Berið fram með hvítlauksbrauði eða öðru góðu brauði.

Eftirréttur
Gulrótarkaka 

Botn:
1 bolli spelt
½ bolli saxaðar möndlur
½ bolli saxaðar valhnetur
½ bolli kókospálmasykur eða hrásykur
1 tsk vínsteinslyftiduft
1 tsk matarsódi
½ tsk salt
2-3 egg (fer eftir stærð)
1 bolli ólífuolía
150 g rifnar gulrætur 

Aðferð: Öllu blandað saman (í þessari röð) og hrært vel.  Sett í form og bakað við 160°C í ca. 40 mínútur eða þar til sprunga fer að myndast.   

Krem:
300 g hreinn rjómaostur
200 g flórsykur eða sukrin:1 (má vera meira eða minna, gott að smakka það bara til)
vanillusykur eftir smekk 

Kremið er sett á botninn þegar hann er orðinn kaldur (ef þið eruð á hraðferð þá er fínt að henda honum í ísskápinn í smá stund). Flott að skreyta með smá möndlukurli.    

Verði ykkur að góðu.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir