Fimmtán starfsgildi hjá frumkvöðlafyrirtæki sem í vor hefur starfsemi á Blönduósi
Morgunblaðið sagði um helgina frá íslensku frumkvöðlafyrirtæki, Foodsmart Nordic, sem mun hefja starfsemi í nýju hátækniframleiðsluhúsi á Blönduósi nú í vor. Fyrirækið framleiðir í dag kollagen, sæbjúgnaduft og fiskprótein í þróunarsetri sínu á Skagaströnd og selur til innlendra aðila en með tilkomu framleiðsluhússins á Blönduósi er stefnt á útflutning. Reiknað er með um 15 stöðugildum við starfsemina auk afleiddra starfa.
„Foodsmart Nordic hyggst stunda kraftmikla nýsköpun og þannig styðja við uppbyggingu og framleiðslu á hágæða fæðubótarefnum á Íslandi. Meðal þess sem Foodsmart Nordic gerir er að nýta hráefni sem annars væri hent eða urðað. Katrín Amni Friðriksdóttir stjórnarformaður og Viðar Þorkelsson framkvæmdastjóri nefna sæbjúga, það snoppufríða skrápdýr, í því sambandi en í því tilfelli er nýtingin 100%. Þá nýtist fiskroð vel við framleiðslu kollagens,“ segir í frétt á Mbl.is.
Aðspurð hvers vegna Blönduós hafi orðið fyrir valinu segja Katrín og Viðar að það sé fyrst og fremst vegna nálægðarinnar við hráefnið og gott samfélag. „Þarna er líka nóg hreint vatn og græn orka á svæðinu, að ekki sé talað um gott rými. Það er ekki eins hagkvæmt að vera með svona framleiðslu í borg, auk þess sem það er hluti af ímynd fyrirtækisins að sækja í náttúruna.“
Heildarfjárfesting verkefnisins er um 500 milljónir króna og er fjármögnun að fullu lokið. Framleiðslutækin komu til landsins í síðustu viku og í dag var verið að vinna við að koma þeim fyrir í nýja húsnæðinu.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.