Fimmtán milljónir úr Matvælasjóði á Norðurland vestra

Af 58 verkefnum er fengu styrki úr Matvælasjóði eru fjögur þeirra af Norðurlandi vestra og hlutu rúmar 15 milljón krónur af þeim 584,6 sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra úthlutaði fyrir helgi. Alls bárust sjóðnum 211 umsóknir í fjóra styrkjaflokka en sótt var um rúmlega 2 m.kr.

„Sá sköpunarkraftur og sú áræðni sem íslenskir matvælaframleiðendur búa yfir er sérstakt ánægjuefni og sýnir áþreifanlega að Ísland er á réttri leið sem matvælaland. Það gleður mig einnig að sjá að hlutföll á milli kynja eru nær jöfn,“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra á heimasíðu Stjórnarráðsins.

Þriðja skiptið sem sjóðurinn úthlutar

Á  vef Stjórnarráðsins kemur einnig fram að hlutverk Matvælasjóðs sé að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla og hliðarafurða úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Áhersla er á nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvæla. Sjóðnum er einnig heimilt að styðja við vöruþróun og markaðssókn á erlendum mörkuðum. Sjóðurinn fylgir eftir heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í þessum tilgangi styrkir sjóðurinn verkefni og rannsóknir einstaklinga og lögaðila.

Í Báru, sem er flokkur fyrir einstaklinga og ætlaður er í að kanna fýsileika, greina eða útfæra hugmynd tengda íslenskri matvælaframleiðslu, var sótt um fyrir 55 verkefni en 23 fengu. Tvö þeirra eru af Norðurlandi vestra, Framhugsun: Bætt nýting nytjaplantna- með áherslu á lífrænan áburð. Hlaut það 2,6 millj. króna styrk og hitt hlaut Stefanie Wermelinger: Folaldajerey og -hrápylsur, alls 2,95 mk.

Kelda er flokkur sem ætlaður er til að styrkja öflun nýrrar þekkingar sem stuðlar að nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Þangað sóttu 57 verkefni að upphæð 714,2 mk. Alls hlutu 14 þeirra styrk upp á 202,3 mk. og var sjávarlíftæknisetrið Biopol eitt þeirra: Food-grade alginate from tissue cultivated brown seaweeds in a biorefinery approach og fékk 7,3 mk. styrk.

Í Fjársjóð sótti 41 að upphæð 431,7 mk. en tíu verkefni hlutu styrki, alls 134.225.000. Sá flokkur veitir styrki til fyrirtækja til að styrkja markaðsinnviði og markaðssókn afurða tengdum íslenskri matvælaframleiðslu og stuðla þannig að nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu. Nordic Fish Leather ehf. var eina verkefni af Norðurlandi vestra sem fékk úthlutun en sú afurð sem NFL framleiðir, á mikið erindi á markað sem nýr valkostur fyrir leðuriðnaðinn. Nam styrkurinn alls 2.225.000 kr.

Ekkert verkefni af NV fékk úthlutað úr Afurð þar sem 58 verkefni alls sótti um 734,5 milljónir en honum er ætlað að styrkja þá sem þróa afurðir sem auka nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu.

Þau verkefni sem fengu styrki má nálgast HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir