FIFA ´09 mót fór fram í Félagsheimilinu á Blönduósi um helgina

Patrick kampakátur með verðlaunin. Mynd: Húni.is

FIFA mót var haldið síðastliðna helgi í Félagsheimilinu á Blönduósi og var mætingin nokkuð góð eða 22 manns. Þetta mót var fyrsta sinnar tegundar á Blönduósi og því erfitt að segja til um hvernig áhuginn yrði og skipuleggjendur renndu blint í sjóinn með þátttökuna.

Fyrir þá sem ekki þekkja til, þá var spilað á Playstation 3 leikjatölvu fótboltaleikinn Fifa 09 sem er mjög vinsæll tölvuleikur meðal unga fólksins og einnig sumum eldri. Spilað var á tveimur skjávörpum og tveimur 32“ sjónvörpum og því var hægt að fylgjast með fjórum leikjum í einu og stemningin var mjög góð. Pizzutilboði frá Pottinum og pönnunni var vel tekið og rifu hungraðir spilarar í sig ilmandi flatbökur sem ferjaðar voru í Félagsheimilið. Eftir riðlakeppnina hurfu sumir á brott en allir fengu að gjöf nokkra fótboltapakka með fótboltamyndum frá Samkaup.

 Hámark keppninnar var að sjálfsögðu sjálfur úrslitaleikurinn en hann spiluðu þeir Sveinbjörn Guðlaugsson 20 ára og Patrick Zamuner 10 ára. Úrslitaleikurinn stóð svo sannarlega undir væntingum og var vægast sagt æsispennandi. Sveinbjörn komst í 1-0, 2-1, þá komst Patrick yfir 2-3 og virtist ætla að sigra þegar Sveinbjörn jafnar leikinn í uppbótartíma og því varð að grípa til framlengingar. Þar komst Sveinbjörn aftur yfir á 94. mínútu og ætlaði sér sigurinn, en þegar menn neita að gefast upp þá er allt hægt og það tókst hjá Patrick að jafna leikinn á síðustu sekúndum leiksins eða á 120. mínútu og staðan 4-4.  Það var svo Patrick sem sigraði í vítaspyrnukeppni 4-2 eða samtals 8-6. Að sigurlaunum fékk Patrick nýjustu útgáfuna af leiknum FIFA 10.

Aðstandendur keppninnar stefna á að halda annað svona mót í byrjun nýs árs og þá verður keppt í FIFA 10 sem er nýjasti leikurinn.

/Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir