Feykir kannar hug lesenda til laganna í Söngvakeppninni
Þeir sem eru sökkerar fyrir netkönnunum geta nú tekið þátt í óvísindalegri könnun Feykis en spurt er hvert framlag Íslands verður í Eurovision sem fram fer í Bítlaborginni Liverpool í maí næstkomandi. Fimm lög keppa til úrslita annað kvöld (laugardag) í þráðbeinni útsendingu í Sjónvarpinu en þar munu snillingarnir Ragnhildur Steinunn, Unnsteinn Manúel og Sigurður Þorri leiða landann í gegnum gleðisprengjusvæði Söngvakeppninnar.
Lögin fimm sem komin eru í úrslit eru eitísskotna danspoppið hinnar síkátu Siggu Ózkar, Dancing Lonely, þá mætir Bragi á svið með sína hálfsænsku laglegu ballöðu, Sometimes the World's Against You. Að loknu hléi færist fjör í leikinn að nýju því þá stökkva stuðboltarnir Celebs frá Suðureyri á svið með sitt B-52's skotna Doomsday Dancing, á eftir þeim kemur hin ferska Diljá og flytur orkubombuna Power. Síðastir á svið eru leðurklæddu rokkhetjurnar í Langa Sela og Skuggunum og syngja OK.
Samkvæmt veðbönkum er reiknað með sigri Langa Sela en það er ekkert öruggt í þessum vísindum líkt og sagan hefur sýnt fram á. Lögin fimm eru hin ágætustu og atriðin og sjóið sömuleiðis.
Það er því ekkert annað í stöðunni en að taka þátt í könnun Feykis, ná sér í snakkið og hækka svo í Sjónvarpinu eða hvaða tæki verður nú brúkað til að fylgjast með gamninu. Áfram Ísland!
- - - - -
P.S. Netkönnunina má finna á forsíðu Feykir.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.