Félag eldri borgara tekur við keflinu af Lillu
Samið hefur verið við Félag eldri borgara í Húnaþingi vestra um að taka að sér framkvæmd hátíðarhalda vegna Sumardagsins fyrsta í samfélaginu. Sama manneskjan, Ingibjörg (Lilla) Pálsdóttir, hefur frá upphafi hátíðarhalda á þessum uppáhaldsdegi landsmanna verið í fararbroddi dagskrárinnar á Hvammstanga í samstarfi við ýmis félagasamtök – eða í ein 65 ár og geri aðrir betur!
Eldri borgarar munu nú sauma nýja búninga til notkunar á Sumardeginum fyrsta sem koma eiga í stað þeirra sem voru orðnir lúnir eftir 65 ára notkun. Í frétt á vef Húnaþings vestra segir að árið 1957, þegar Sumardeginum fyrsta var fyrst fagnað á Hvammstanga, hafi hátíðin verið „..haldin til fjáröflunar Fegrunarfélagsins fyrir gróðursetningu í sjúkrahúsgarðinum á Hvammstanga. Í dag er sá garður orðinn stór og þéttur skógur. Þó hátíðin hafi ekki verið með nákvæmlega sama sniði öll þessi ár hefur Vetur konungur þó alltaf afhent Sumardísinni veldissprotann og hafa þau verið klædd í búningana sem forvígiskonur hátíðarinnar saumuðu. Ingibjörg Pálsdóttir (Lilla) hefur frá upphafi haldið utan um hátíðarhöldin með aðstoð frá ýmsum félagasamtökum en síðustu ár hefur fjölskylda hennar ásamt henni staðið fyrir hátíðinni.“
Í fyrra var tilkynnt að það yrði í síðasta sinn sem Lilla stæði fyrir hátíðarhöldunum. „Búningarnir sem notast hefur verið við hafa nú verið gefnir á Verslunarminjasafnið á Hvammstanga og verða þar til sýnis til marks um það ómetanlega starf sem Lilla hefur unnið,“ segir í fréttinni. „Eru Lillu færðar bestu þakkir fyrir sitt mikla framlag til menningarstarfs í sveitarfélaginu með hátíðarhöldunum um áratuga skeið sem og þeim fjölmörgu sem hafa komið að þeim með einum eða öðrum hætti í gegnum árin.“
Hér má skoða myndir og lesa um Sumardaginn fyrsta á Hvammstanga 2022 >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.