Fávita umræða
Umræðan um stjórn fiskveiða sem nær upp á yfirborð stærstu fjölmiðlanna er nánast fávitaleg. Eðli fiskistofna er að sveiflast gífurlega og ætti flestum að vera ljóst að fiskveiðar eru ekki stærsti áhrifaþáttur í stofnsveiflum þeirra. Núna þykist forstjóri Hafró geta séð fyrir auknar veiðar allt til ársins 2016. Enginn á Hafró sá fyrir niðursveifluna á þorskstofninum í kringum síðustu aldamót og ekki heldur árið 2006, en niðursveiflurnar urðu þrátt fyrir að farið var nákvæmlega eftir ráðgjöf stofnunarinnar.
Hvers vegna er engin gagnrýnin umræða um algert árangursleysi veiðiráðgjafarinnar en um áratugaskeið var á Íslandsmiðum veidd um hálfmilljón tonn af þorski en núna er aflinn vel innan við helmingurinn af því sem miðin gáfu áður af sér? Fleiri spurningar sem vakna s.s. hvers vegna karfastofninn rýkur upp í mælingum en fiskurinn er sagður verða gamall og vera hægvaxta. Ef allt væri með felldu í mælingum og reiknilíkönum þá ættu umræddar sveiflur að vera fyrirséðar. Sama á við um hrapið á mælingu á ýsustofninum. Minni veiðiheimildir á ýsu á næsta ári eru ávísun á bein vandræði og brottkast
Ekki bætir úr skák að fjórflokkurinn á hinu háa Aþingi virðist að mestu hjartanlega sammála um að vera áfram með óbreytta fiskveiðistjórn og úthluta sömuleiðis örfáum sérstökum sérréttindum til áratuga. Helstu deilurnar á Alþingi snúast um hversu mikið eigi að skattleggja einokunarréttinn. Eina vitið núna er að leggja frumvörp ríkissjórnarinnar til hliðar og skoða stjórn fiskveiða frá grunni.
Sigurjón Þórðarson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.