Fáum unga fólkið í Skagafjörð
Ég hef um nokkurt skeið fylgst með breytingum sem hafa orðið á aldurssamsetningu íbúa Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Samfara því að íbúum sveitarfélagsins Skagafjarðar hefur fækkað lítillega, þá hafa gerst aðrir hlutir sem hafa ekki farið mjög hátt í umræðunni. Ungu fólki í Skagafirði hefur fækkað talsvert, á sama tíma og eldra fólki hefur fjölgað. Þróunin er vissulega áhyggjuefni, en sömuleiðis ber að gaumgæfa hvort að ekki leynist í stöðunni tækifæri, sem hægt sé að nýta til uppbyggingar samfélagsins.
Frjálslyndir og óháðir í Skagafirði vilja að farið verði í markvissa vinnu við að laða ungt fólk, til að festa ræður í Skagafirði. Til að ná árangri, þarf að virkja sem flesta og alveg örugglega starfsfólk sveitarfélagsins. Stjórnendur og þeir sem marka stefnu verða að vera tilbúnir að forgangsraða og skerpa á áherslum. Ekki er til mikils að blása til innihaldslausrar og ómarkvissar sóknar. Verði farið í sókn þarf að skilgreina ákveðið hvaða vanda á að leysa og með hvaða hætti.
Ef marka má nýlega grein á vefnum Feykir.is virðist vera sem að leiðtogi Framsóknarmanna í Skagafirði telji, að meint aum staða jafnréttismála og kynbundið ofbeldi á landsbyggðinni og þá væntanlega í Skagafirði, vera skýringu á fækkun ungs fólks í hinum dreifðu byggðum.
Staðreyndin er sú, að fjöldi karla og kvenna í Skagafirði er nánast sá sami. Bent hefur verið á að sáralítill munur er á fjölda ungra karla og kvenna í Skagafirði, þrátt fyrir að yngir konur séu duglegri að brjótast til mennta. Augljóslega eru leiðtogar Framsóknarflokksins í Skagafirði á algjörum villigötum, að telja að laða megi ungt fólk til búsetu í héraðinu, með því einu að hrinda i framkvæmd; nýsamþykktri, margra blaðsíðna, þéttskrifaðri og mjög kostnaðarsamri jafnréttlætisáætlun Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Nærtækara væri að horfa til búsetuskilyrða ungs fólks almennt í Skagafirði og búa sömuleiðis til farveg og verklagsreglur um hvernig skuli taka á grunsemdum um, mismunun á grundvelli kynferðis og kynbundnu ofbeldi.
Sveitarfélagið mun að mati Frjálslyndra og óháðra örugglega blómgast ef hægt væri að sameinast um uppbyggilegar og raunhæfar tillögur, sem laða ungt fólk til búsetu. Tillögurnar þarf að meitla og þyrftu þær væntanlega að snúa að húsnæðismálum, atvinnumálum, afþreyingu og kynna þau fjölmörgu gæði sem Skagafjörður býður upp á.
Hér að neðan er bókun mín um ítarlega jafnréttisáætlun Skagafjarðar Sveitarlagsins Skagafjaðar, sem virðist eitthvað hafa farið fyrir brjóstið á formanni Framsóknarmanna í Skagafirði, en hún, bókunin, snýst um forgangsröðun og heilbrigða skynsemi:
Sigurjón Þórðarson sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra greiðir þessari áætlun ekki atkvæði sitt. Ég hef ekki orðið var við að Sveitarfélagið Skagafjörður hafi mismunað einstaklingum á grundvelli kynferðis eða að sveitarfélagið líði með neinum hætti kynbundið ofbeldi.
Það er því ekki sérstök ástæða til þess að leggja fram ítarlega áætlun um aðgerðir og mikla fjármuni í verkefnið.
Nærtækara væri að sveitarfélagið notaði sína krafta og færi í markvissa vinnu sem miðaði að því að snúa við neikvæðri íbúaþróun í Sveitarfélaginu Skagafirði, en frá árinu 1999 hefur íbúum yngri en fertugt fækkað um 356 á meðan íbúum í sveitarfélaginu hefur fækkað um 103 á sama tímabili.
Sigurjón Þórðarson
Sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra í Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.