Fasteignaskattur í Sveitarfélaginu Skagafirði á að vera sambærilegur og hjá nágrannasveitarfélögum okkar

K–listinn leggur áherslu á lækkun fasteignaskatts á kjörtímabilinu þannig að hann verði eins og þau gerast lægst á Norðurlandi vestra. Með því að lækka fasteignarskatt léttum við álögur á fjölskyldur, hvetjum til nýbygginga og styrkjum atvinnulífið til  nýsköpunar.

Samkvæmt skýrslu sem unnin var af Verðlagseftirliti ASÍ hækkuðu fasteignagjöld í langflestum af fimmtán fjölmennustu sveitarfélögum landsins árin 2012 og 2013.  Hækkunina má m.a. rekja til þess að fasteignamat hækkaði verulega og einnig hér í Skagafirði.

Ef rýnt er í árbók sveitarfélaga árið 2013 má sjá að sveitarfélagið Skagafjörður er meðal sex sveitarfélaga af 32 með 1.000 íbúa og fleiri sem eru með hámarks prósentu á skatti sem lagður er á íbúðarhúsnæði.  Sveitarfélagið er meðal 20 sveitarfélaga sem eru með hámarks prósentu á atvinnuhúsnæði.

Ef horft er til nágranna okkar í vestur og austur má sjá að Húnaþing vestra, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð eru öll með lægri fasteignaskatt á íbúðahúsnæði en Sveitarfélagið Skagafjörður. Húnaþing vestra, Blönduósbær og Sveitarfélagið Skagaströnd eru með lægri álögur á atvinnuhúsnæði.

Tökum dæmi um íbúðarhúsnæði í Skagafirði sem er metið á 22.7 m.kr. og 0,5 % skatthlutfall sveitarfélagsins, þá er árgjaldið 113.500 kr.   Ef sama fasteign er reiknuð út frá 0,4 % skatthlutfalls líkt og er á Skagaströnd væri árgjaldið 90.800 kr. Mismunur er 22.700 kr. íbúum Skagafjarðar í óhag.

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, skipar 1.sæti K- lista Skagafjarðar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir