Fallega haustið
Veðrið hefur leikið við íbúa á Norðurlandi vestra, og jafnvel víðar um land, síðustu daga. Mjúkir menn hafa stokkið fram á Facebook og viðurkennt samverustundir með blómum sem fyrir löngu hefðu átt að vera fallin fyrir frostklóm haustsins. En haustið 2010 hæðist að dagatalinu og er útlit fyrir að veðrið í dag verði ekki til að ergja okkur.
Síðan kólnar eitthvað og rignir næstu daga samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar en gert er ráð fyrir að það hlýni á ný þegar líður á vikuna og ef þeir veðurfræðingar eru ekki bara að grínast þá þykjast þeir gera ráð fyrir 15 stiga hita næstkomandi laugardag.
Dágott haustveður veldur því að við fáum að njóta haustlitanna heldur lengur en gerist og gengur. Ljósmyndari Feykis hóf myndavélina á loft á hádegi sunnudags og festi nokkra einstaka liti inn á minniskortið. Hann náði þó ekki að smella myndum af kóngulóm og randaflugum sem urðu á vegi hans – enda ekki gott að mynda á flótta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.