Fæðingardeildinni á Króknum lokað í sparnaðarskyni
Samkvæmt frétt á Rúv verður fæðingardeildinni á Sauðárkróki lokað í sparnaðarskyni en Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki er gert að spara um 100 milljónir króna á árinu og er lokun deildarinnar liður í sparnaðaraðgerðum.
Hafsteinn Sæmundsson forstjóri Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki segir að árlega hafi á bilinu 20-30 börn fæðst á deildinni á undanförnum árum. Í ljósi mikils niðurskurðar verði ekki hjá því komið að skerða þjónustuna, til dæmis með því að loka fæðingardeildinni. Mæðrum verði vísað til Akureyrar eða suður.
Haft er eftir Hafsteini í frétt Rúv að rætt hafi verið um að hætta að taka á móti börnum á Akranesi þó það sé ekki komið á hreint. Það gæti þýtt að ekki verði tekið á móti börnum á svæðinu milli Reykjavíkur og Akureyrar og væntanlegir foreldrar gætu því þurft að leggja í talsverð ferðalög.
Hafsteinn segir að farið hafi verið yfir alla möguleika því víða sé gengið á þá þjónustu sem hafi verið veitt. Það þýði mjög mikið óhagræði og aukakostnað fyrir íbúa Skagafjarðar og nærsveita.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.