"Fádæma fáviska"
Stjórnarliðar kveinka sér mjög undan því að rætt sé efnislega um fjárlagafrumvarpið. Það þarf ekki að koma á óvart. Það er auðskiljanlegt að ábyrgðarmenn þessa máls telji óþægilegt að ræða þetta mál svo vanbúið sem það er á alla lund. Þetta eru blekkingarfjárlög, byggð á veikum grunni. Stjórnarliðar hafa bersýnilega ákveðið að láta skeika að sköpuðu og ætla nýjum stjórnvöldum, eftir alþingiskosningar í vor, að taka á þeim vandamálum sem hin nýju fjárlög ná ekki utan um.
Þessi dæmi blasa hvarvetna við. Það er lagt fram fjárlagafrumvarp, sem síðar fær efnislega meðferð í fjárlaganefnd Alþingis. Niðurstaða hennar kemur svo fram í breytingartillögum meirihluta nefndarinnar, sem þegar hafa verið lagðar fram. Í mörgum tilvikum er greinilega ekki ætlunin að takast á við vanda fjölmargra ríkisstofnana. Þeim er att út í fullkomna óvissu, eða afgreidd með þeim hætti að fullljóst er að þær munu ekki geta starfað í óbreyttri mynd. Þetta heitir að sópa vandamálunum undir teppið.
Það vantar 25% upp á ríkisframlagið
Dæmi um þetta er Hólaskóli - Háskólinn á Hólum. Ég vakti einmitt athygli á vanda þess skóla í fjárlagaumræðunni á Alþingi í þessari viku. Slíkar aðfinnslur voru kallaðar tilgangslaust málþóf, af hálfu stjórnarliða. Engin fyrirheit komu fram um að málefni skólans yrðu skoðuð frekar. Það er ljóst að ætlunin er að láta skeika að sköpuðu.
Hólaskóli verður rekinn með tapi á þessu ári. Tapið nemur 34 milljónum króna, eftir að búið er að taka tillit til sölu á þekktum góðhesti, fyrir 25 milljónir króna, eins og fram hefur komið m.a í fjölmiðlum. Án þessarar sölu hefði rekstrartapið orðið um 60 milljónir króna.
Ríkisframlagið til skólans verður á næsta ári 264 milljónir króna. Til þess að hægt sé að halda úti óbreyttri umgjörð um skólahaldið, vantar 65 milljónir króna upp á fjárveitinguna. Það þarf sem sagt að hækka framlagið um 25%.
Ríkisframlagið dugir fyrir níu mánaða rekstri
Hvað þýðir þetta í raun? Jú svarið blasir við. Fjárveitingarnar sem ætlaðar eru til rekstrar skólans duga fram til septemberloka á næsta ári. Verði þetta niðurstaðan og hlíti menn fjárlögunum, blasir því við stöðvun rekstrar skólans, svona um það bil sem Laufskálaréttum lýkur í lok september.
Þetta vita allir. Þetta vita menntamálayfirvöld, þetta veit meirihluti fjárlaganefndar og ekki síður stjórnarþingmennirnir, en í umboði þeirra starfar meirihluti fjárlaganefndarinnar og menntamálaráðherra.
Engu að síður er anað áfram. Viðbrögðin eru engin, nema þau að uppnefna málflutning á borð við minn, ómerkilegt málþóf og tilgangslausar umræður. Undantekningin frá þessu var stjórnarliðinn Jón Bjarnason, sem tók undir gagnrýni mína og kallaði ráðslag félaga sinna í ríkisstjórnarliðinu, "fádæma fávisku um þá starfsemi sem þarna á sér stað með þeim niðurskurði sem þar er viðhaldið."
Hressist Eyjólfur?
Það er auðvitað ekki öll nótt úti enn. Framundan er að málið gangi að nýju til fjárlaganefndar og síðan til þriðju umræðu. Ekki er vonlaust um að stjórnarmeirihlutinn sjái að sér, þó engar vonir getum við bundið við slíkt, út frá því fullkomna tómlæti sem kom fram af hálfu þeirra sem með valdið hafa í þessum málum í umræðum í þinginu. En við skulum samt halda í vonina um að Eyjólfur hressist.
Einar Kristinn Guðfinnsson alþingismaður
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.