Eyþór hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar

Skagfirðingurinn Eyþór Árnason frá Uppsölum hlaut í gær bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir handrit að ljóðabókinni Hundgá úr annarri sveit.

Í umdögn dómnefndar um Eyþór segir að í bókinni streymi
 ljóðmálið fram, sterkt og hugmyndaríkt. Kímnin sé aldrei langt undan og alls kyns furður geri vart við sig, „eins og þegar rjúpurnar hans Guðmundar í Miðdal sem gerðar eru úr gleri lifna við og láta sig hverfa. Í öðru ljóði leggja skip að bryggju bakvið mánann þar sem skuggalegir menn bíða með skjalatöskur. Og í enn öðru ljóði kemur Clint Eastwood ríðandi yfir Faxaflóann. Það er gnægð af skemmtilegri hugsun og hugmyndum í þessari ljóðabók."

Eyþór er fæddur árið 1954 en hann útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1983. Eyþór hefur um árabil starfað hjá Stöð 2 og Saga Film sem sviðsstjóri en starfar nú sjálfstætt.

Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar eru veitt ár hvert í minningu Tómasar Guðmundssonar skálds fyrir óprentað handrit að ljóðabók. Verðlaunin voru veitt fyrst árið 1994. Í ljóðasamkeppni um bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar bárust að þessu sinni 42 handrit. Í dómefnd sátu Kolbrún Bergþórsdóttir formaður, Ingibjörg Haraldsdóttir og Jón Óttar Ragnarsson.

Ljóðabókin Hundgá úr annarri sveit  kom út á vegum bókaforlagsins Uppheima um leið og verðlaunaafhendingin fór fram. Feykir óskar Eyþóri frænda innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir