Eyfirðingar reyndust sterkari þegar þeir mættu Kormáki/Hvöt
Lið Kormáks/Hvatar heimsótti Dalvík í gær þar sem sameinaðir Húnvetningar mættu sameinuðum Árskógsstrendingum og Dalvíkingum. Heimamenn hafa farið vel af stað í 3. deildinni og tróna á toppnum eftirsótta. Þeir slógu ekkert af í gærkvöldi og gerðu nánast út um leikinn á fyrstu 25 mínútunum. Þegar upp var staðið höfðu þeir sigrað 4-2 og sendu Kormák/Hvöt niður í fallsæti.
Vilhelm Ottó Ottósson kom liði Dalvíkur/Reynis yfir eftir níu mínútur og Númi Kárason bætti um betur tíu mínútum síðar. Þriðja mark heimamanna gerði Jóhann Sigurjónsson á 23. mínútum og upphafsmínútur leiksins gestunum erfiðar. Þeir klóruðu reyndar í bakkann mínútu síðar þegar Ante Marcic færði þeim líflínu. Staðan 3-1 í hálfleik.
Ef Kormákur/Hvöt hefðu gert næsta mark hefði hlaupið spenna í leikinn en svo varð ekki. Á 58. mínútu gerði Þröstur Jónasson út um leikinn með fjórða marki heimamanna. Fyrirliði Húnvetninga, Sigurður Bjarni Aadnegard, lagaði stöðuna á 78. mínútu en ekki tókst gestunum að bæta við mörkum.
Fjórða tap Kormáks/Hvatar í röð, eftir góða byrjun á mótinu, því staðreynd og er liðið sem stendur í ellefta sæti deildarinnar með jafnmörg stig og lið ÍH en slakari markatölu. Húnvetningar hafa sýnt í sumar að þeir geta vel spriklað með hinum liðunum í deildinni og því engin ástæða til að örvænta. Næst mæta þeir Elliða úr Árbænum á heimavelli sínum á Blönduósi. Þá þarf að bretta upp ermarnar. Áfram Kormákur/Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.