ESB er pólitísk og efnahagsleg samvinna
Fyrr í sumar var umsókn okkar Íslendinga um inngöngu i ESB lögð fyrir ráðherraráð Evrópusambandsins sem samþykkti að vísa umsókninni til framkvæmdastjórnar þess og meta hvort forsendur séu til þess að hefja viðræður um inngöngu landsins. Samkvæmt venju þarf umsóknin að fara í matsferli og viðræður geta ekki hafist fyrr en skýrsla framkvæmdastjórnarinnar liggur fyrir, hugsanlega eftir eitt ár eða þar um bil. Eins og sakir standa er íslenska stjórnsýslan nú að svara spurningalista sem lagður hefur verið fyrir ráðuneytin sem efniviður í þá skýrslu.
Á meðan gengur lífið sinn vanagang – þjóðin skiptist á skoðunum um málið og kannanir bera þess vitni að sitt sýnist hverjum. Segja má að í raun sé fátt ennþá sem hönd á festir fyrir íslenskan almenning að byggja afstöðu sína á. Nema nokkur atriði sem vert er að halda til haga.
Evrópusambandið er samband 27 Evrópuríkja sem hafa með sér nána samvinnu, veita gagnkvæm réttindi og setja sér sameiginlegar reglur á mörgum sviðum. Markmið ESB er pólitísk og efnahagsleg samvinna sem stuðlar að friði og hagsæld í Evrópu. Raunar er sambandið á margan hátt einstakt í sinni röð. Engin önnur ríki eða ríkjabandalög hafa með sér eins nána samvinnu og hefur þróast innan ESB þar sem sjálfstæð og fullvalda ríki hafa með sér sameiginlegar stofnanir þar sem þau deila með sér fullveldi sínu til þess að taka ákvarðanir sem varða sameiginlega hagsmuni.
Ísland hefur í áratugi haft margvísleg tengsl við ESB, fyrst í gegnum fríverslunarsamning EFTA ríkjanna við ESB (1972), síðar í gegnum EES samninginn (1994) en hann markaði þáttaskil í samskiptum landsins við Evrópusambandið. Má með nokkrum sanni segja að þá hafi Ísland gerst aukaaðili að sambandinu og fengið aðgang að markaði.
Enn standa þó út af nokkrir mikilvægir málaflokkar eins og sameiginleg landbúnaðar- og sjávararútvegsstefna, pólitískt samstarf og þættir er lúta að öryggis- og varnarmálum. Síðast en ekki síst ber að nefna möguleika á efnahagssamvinnu þar sem evran – hinn sameiginlegi gjaldmiðill svæðisins - vegur auðvitað þyngst.
Þau samningsdrög sem um síðir verða lögð fyrir þjóðina munu leiða í ljós hversu raunhæfur kostur það er fyrir Ísland að ganga í ESB. Sú vinna er öll eftir, og afrakstur hennar mun vonandi sýna okkur svart á hvítu hvaða möguleikar felast í því fyrir okkur að verða eitt af ESB ríkjunum. Samningsmarkmið okkar verða að vera skýr og afdráttarlaus. Forræði yfir fiskimiðum okkar og öðrum auðlindum verður að liggja ljóst fyrir. Við verðum að hafa tryggingu fyrir því að atvinnuvegir okkar fái þrifist við þau skilyrði sem skapast við inngönguna.
Sem stendur bendir flest til þess að skilyrði atvinnulífsins muni batna, meðal annars í vissum greinum landbúnaðar, á borð við sauðfjárrækt. Full ástæða er til að ætla að skapast geti hagstæðara rekstrarumhverfi fyrir undirstöðuatvinnuvegina með áherslu á samkeppnishæfi, umhverfis- og náttúruvernd í sveitum, fullvinnslu afurða, vistvænar veiðar, vöruþróun og markaðssetningu – en allt þetta eru stefnumið sem Evrópusambandið hvetur til og styrkir með ýmsum hætti.
Þá er enn ónefnd byggðastefna ESB um styrkingu veikra svæða, bætt lífsgæði, nýsköpun, þekkingu og grunngerðir á borð við samgöngur og fjarskipti í dreifbýli – allt saman brýn hagsmunamál fyrir íslenska landsbyggð eins og sakir standa . Stefna sambandsins er sömuleiðis að jafna félagslega og fjárhagslega stöðu íbúa í álfunni með áherslu á menntun og að styrkja stöðu hópa sem eiga undir högg að sækja, meðal annars innflytjenda, fatlaðra, ungmenna og aldraðra.
Þannig mætti ætla að innganga Íslands í ESB væri til þess fallin að styrkja hér stjórnsýsluna, bæta viðskiptaumhverfið, efla byggðaþróun og ýta undir sjálfbærari og vistvænni framleiðsluhætti en verið hefur. Þá ættu að geta skapast fjölbreyttari menntunarkosti og atvinnumöguleikar fyrir ungt fólk.
Við Íslendingar erum nú í þeim sporum að við verðum að stíga markviss skref í átt til stöðugra efnahagslífs og bættra lífskjara. Innganga okkar í ESB gæti einmitt verið skref í þá átt að bæta lífskjör almennings með lægra vöruverði sem óhjákvæmilega hlýst af opnun markaðarins. Auðnist okkur að taka upp evruna eftir einhver ár ættu að skapast hér skilyrði fyrir lækkun vaxta og hjöðnun verðbólgu. Gengissveiflur væru úr sögunni.
Á öllu þessu þurfum við sárlega að halda. En við þurfum líka að hafa kjark og þor til þess að mæta framtíðinni.
Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.