Eru fréttirnar kannski betri?
Fréttirnar af stærri þorskstofni eru jákvæðar og uppörvandi. Árið 2007 var talið að viðmiðunarstofninn, sem lagður er til grundvallar kvótaúthlutun, yrði í ársbyrjun 2008 einungis um 570 þúsund tonn. Hafrannsóknastofnunin taldi og að framundan yrðu ekki skárri ár. Þorskkvótinn miðað við óbreytta nýtingarstefnu hefði því um ókominn tíma verið um 150 þúsund tonn og hætta á að minnkaði enn. Nú er staðan sú að viðmiðunarstofninn er um 850 þúsund tonn og að hann fari yfir 900 þúsund tonn á næsta ári. Breytingin í prósentum mæld er því gríðarleg. Tæplega 60% aukning séu þessar tölur bornar saman.
Margir telja þó að í raun sé staðan mun betri og að jafnvel miðað við þetta mat Hafrannsóknastofnunarinnar, væri óhætt að styðjast við hærri veiðiprósentu. Veiða til dæmis fjórðung en ekki fimmtung af viðmiðunarstofni, eins og nú er gert skv. aflareglu. Um þetta munu menn ræða og sú umræða er nauðsynlegur hluti af því að komast að vitrænni niðurstöðu í þessu mikilvæga máli.
Vöxtur hrygningarstofns frá 2007
En skoðum aðeins tölurnar nánar og þá í sögulegu samhengi.
Óumdeilt er að þegar hrygningarstofn er orðinn mjög lítill hefur það neikvæð áhrif á nýliðunina. Þetta orsakasamband er umdeilanlegra þegar um er að ræða stóran hrygningarstofn. En á undanförnum árum hefur hrygningarstofninn verið of lítill sem hefur ótvírætt komið niður á nýliðuninni.
Nú sjáum við mjög merkjanlega breytingu. Hrygningarstofninn mælist nú 300 þúsund tonn og fer stækkandi. Slíkar tölur höfum við ekki séð, nema með tveimur undantekningum, frá árinu 1970, eða í 40 ár. Þegar ákvörðunin var tekin um mikinn niðurskurð í þorskafla árið 2007 var hrygningarstofninn metinn 180 þúsund tonn og talið að hann yrði nálægt þeirri tölu að óbreyttu. Við erum því að tala um aukningu, eða breytingu á mati á hrygningarstofni um 66% - eða um tvo þriðju - á ekki lengri tíma. Á sama tíma hefur sú þróun verið mjög merkjanleg að vænni og eldri fiskur er stærra hlutfall í veiðinni. Svo hátt hlutfall 10 ára þorsks í afla hefur ekki sést frá árinu 1983, en var algengt fyrir árið 1975. Þetta eru mikil og góð tíðindi sem ættu að styrkja okkur í þeirri trú að við séum að leggja grunn að betri hrygningu og nýliðun á næstu árum.
Viðmiðunarstofninn – ekki stærri frá árinu 1989
Sömu þróun sjáum við líka í sambandi við viðmiðunarstofninn, þorskinn sem er 4 ára eða eldri og sem er grundvöllur kvótaákvörðunarinnar. Sá stofn er nú mældur 846 þúsund tonn og talinn verða 902 þúsund tonn á næsta ári. Hafrannsóknastofnunin mat hann 650 þúsund tonn örlagaárið 2007 og áætlaði stærð hans 570 þúsund tonn í ársbyrjun 2008. Þetta þýðir að á þessum stutta tíma erum við að tala um breytingar upp á nær 60%, sé stærð hans í ársbyrjun næsta árs lögð til grundvallar við samanburðinn.
Til þess að fá dæmi um stærri stofn þurfum við að fara aftur til ársins 1989. Þá var tillaga Hafrannsóknarstofnunarinnar um hámarksafla 300 þúsund tonn, stjórnvöld ákváðu 325 þúsund tonna veiði og sem varð svo á endanum um 350 þúsund tonn. Þetta var vel að merkja vel fyrir daga aflareglunnar, sem hér hefur verið gerð að umtalsefni.
Til fróðleiks má líka vekja athygli á að á árunum 2004- 2006 var viðmiðunarstofninn á bilinu 700 til 800 þúsund tonn. Við höfum því séð þorskstofninn stækka umtalvert umfram það sem hann var, árin áður en tekin var sú umdeilda ákvörðun að minnka sóknina í þorskinn svo umtalsvert, til þess að stuðla að því að hann rétti úr kútnum með sæmilegu öryggi og ekki á alltof löngum tíma. Á þessum tíma var hins vegar byggt á 25% aflareglu sem gerði það að verkum að kvótarnir á þessum árum voru frá 193 til 205 þúsund tonn. Með slíkri aflareglu yrði aflinn á þessu og næsta fiskveiðiári 212 og 225 þúsund tonn.
Erum að nálgast kvótann eins og hann var fyrir niðurskurð
Athyglisvert er líka að velta upp öðrum útreikningum. Ef mat Hafrannsóknastofnunarinnar gengur eftir um stærð þorskstofnsins á næsta ári, gefur 20% aflareglan, þar sem ekki væri tekið tillit til sveiflujöfnunar, um 180 þúsund tonna ársafla. Hér er ekki verið leggja til að horfið verði frá sveiflujöfnuninni. Alls ekki. Slíkt væri óskynsamlegt. En af þessum tölum má ráða að við erum nú mjög að nálgast þann ársafla að nýju sem við veiddum fyrir hinn mikla niðurskurð á árinu 2007 og það þó að byggt sé á fimmtungi lægri aflanýtingarprósentu.
Er þetta enn til marks um að þorskstofninn sé ótvírætt að rétta úr kútnum. Og það þó einvörðungu sé stuðst við tölur Hafrannsóknastofnunarinnar, sem flestir sjómenn og útvegsmenn telja þó að feli fremur í sér vanáætlun en ofáætlun á stærð stofnsins. Hafrannsóknastofnunin flutti okkur því uppörvandi fréttir af þorskstofninum í ástandsskýrslunni sinni þetta árið. Aldrei þessu vant, segja ábyggilega margir. Hvað sem því líður, þá var kominn tími til og við verðskulduðum það, eftir þær fórnir sem færðar hafa verið með skerðingunum undanfarin ár.
Áhrif strandveiðanna
Eitt hefur þó breyst frá því í fyrra. Nú eru hafnar svo kallaðar strandveiðar samkvæmt nýjum lögum. Þar er áætlað að 5 þúsund tonn af þorski muni veiðast, eða rúm 3% þorskkvótans á fiskveiðiárinu. Þessi afli kemur ekki til frádráttar við úthlutun aflamarks á núverandi fiskveiðiári. Það mun hins vegar gerast strax á því næsta. Þeir sem eru að stunda fiskveiðar sem atvinnugrein á heilsársgrunni munu því ekki fá nema helming kvótaaukningarinnar til ráðstöfunar á næsta fiskveiðiári.
Við í minnihluta sjávarútvegs og landbúnaðarnefndar reyndum að fá þessu breytt. Málið kom fyrst til kasta Alþingis eftir aðra umræðu málsins. Þá ákvað stjórnarmeirihlutinn að hafa þetta fyrirkomulag, gegn okkar vilja í minnihlutanum. Síðan lögum við til í sáttaskyni að strandveiðarnar yrðu utan við sviga næstu tvö fiskveiðiárin, til þess að milda skerðingaráhrifin. Stjórnarmeirihlutinn skellti við því skollaeyrum líka og sýndi hug sinn í verki til þeirra sjómanna, fiskverkunarfólks og útvegsmanna sem eiga sitt undir aflamagni í krókaaflamarks og aflamarkskerfi. Það var þeirra stefnumörkun. Hún liggur nú fyrir; er meðvituð niðurstaða stjórnarliða og þá vitum við það.
Hvernig á að úthluta aflaaukningunni?
Og þá er aðeins eitt eftir í lokin og það er þetta. Nú sjáum við vonandi auknar aflaheimildir í þorski á næstu árum, vegna stærri þorskstofns. Rétt eins og enginn efaðist um réttmæti þess að handhafar veiðiréttarins tækju á sig skerðingarnar, þá er jafn rökrétt að þeir njóti aukningarinnar. Eða dettur annars nokkrum í hug að eðlilegt sé og sanngjarnt að útgerðin taki á sig tekjuskerðinguna þegar illa árar í sjónum, en njóti ekki tekjuaukningarinnar þegar hún gefst með auknum aflaheimildum vegna uppbyggingar á þorskstofninum; uppbyggingar sem aukinheldur krafðist fórna? Það yrði þá að minnsta kosti undarleg hugsun og lítt til þess fallin, að hvetja menn til ábyrgrar umgengni í lífríki hafsins. Hvað sem réttlætiskennd manna líður, þá gæti það að minnsta kosti seint talist græn eða vistvæn stefna, né í samræmi við umhverfissjónarmið þau sem núverandi ríkisstjórn hefur stundum á vörunum.
Einar Kristinn Guðfinnson, alþingismaður, fyrrv. sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.