Erfiðar lokamínútur Stólastúlkna í Njarðvík
Kvennalið Tindastóls brunaði alla leið í Njarðvík á þriðjudaginn og léku við lið heimastúlkna um kvöldið. Gestirnir lentu snemma undir og eltu lið Njarðvíkur nánast allan leikinn en voru þó sjaldnast langt undan. Heimastúlkur stigu upp undir lok þriðja leikhluta og Stólastúlkur áttu þá ekkert svar. Lokatölur 88-65.
Njarðvíkurliðið fór vel af stað og var yfir, 10-2, eftir þriggja mínútna leik. Smám saman kviknaði á okkar stelpum og Karen Lind minnkaði muninn í 13-11 þegar rúmar sjö mínútur voru liðnar. Staðan var síðan 21-17 að loknum fyrsta leikhluta. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta en heimastúlkur yfirleitt með 2-5 stiga forystu. Fjögur stig frá Tess á loka andartökum fyrri hálfleiks minnkuðu muninn í eitt stig fyrir hlé og staðan 35-34 fyrir Njarðvík.
Eva Rún kom Stólastúlkum yfir í fyrsta og raunar eina skiptið í leiknum í upphafi síðari hálfleiks, 35-36. Njarðvík náði aftur undirtökunum en náðu ekki að merja gestina af sér fyrr en undir lok þriðja leikhluta. Fimm stiga munur var á liðunum, 52-47, þegar sjö mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta en þá kom 10-3 kafli og lið Njarðvíkur með nokkuð þægilega stöðu fyrir lokafjórðunginn. Lið Tindastóls þurfti nauðsynlega gott áhlaup til að koma sér inn í leikinn á ný en því náðu þær aldrei og munurinn breikkaði bara eftir því sem á leið. Niðurstaðan 23 stiga tap.
Tessondra Williams var sem fyrr stigahæst í liði Tindastóls með 26 stig og hún tók einnig níu fráköst og fiskaði 13 villur á lið Njarðvíkur. Enda voru ferðir Tess á vítalínuna reglubundnar og setti hún niður 11 af 14 vítaskotum sínum. Karen Lind gerði 12 stig í leiknum og tók sex fráköst, Marín Lind gerði 10 stig og tók sömuleiðis sex fráköst. Þá gerði Eva Rún 8 stig í leiknum, Hera Sigrún 4, Telma Ösp 3 og Ingibjörg Fjóla 2.
Lið Njarðvíkur tók heldur fleiri fráköst í leiknum, 42/35, og skotnýting liðanna innan teigs var sömuleiðis svipuð. Vítanýting liðanna var sú sama, 24/32, en utan 3ja stiga línunnar voru heimastúlkur dugmeiri, settu niður átta þrista í 31 tilraun á meðan lið Tindastóls setti niður einn þrist í tíu tilraunum.
Dagana 14. og 15. mars leika Stólastúlkur tvo leiki í Hveragerði og hljóta að stefna á fyrsta sigurinn á nýju ári gegn botnliði Hvergerðinga. Síðasti leikur tímabilsins er hér heima 21. mars en þá kemur lið ÍR í heimsókn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.